Hæstiréttur Kenýa hefur úrskurðað að sigur sitjandi forseta landsins, Uhuru Kenyatta, í nýlegum forsetakosningum hafi verið lögmætur. David Maraga, forseti réttarins, segir að sex dómarar við réttinn hafi verið sammála um að Kenyatta sé réttkjörinn forseti.
Kenyatta hlaut 98,2 prósent atkvæða í kosningunum í lok október eftir að andstæðingur Kenyatta, Raila Odinga, lýsti kosningunum sem sýndarkosningum, dró framboð sitt til baka og hvatti stuðningsmenn sína til að sniðganga kosningarnar.
Þátttakan í kosningunum var einungis 39 prósent.
Upphaflega fóru forsetakosningar fram í landinu í ágúst en hæstiréttur landsins ógilti kosningarnar.
Mikil spenna hefur verið í Kenýa eftir kosningarnar í ágúst þar sem andstæðingar forsetans hafa meðal annars kveikt í bílum og hefur lögregla beitt táragasi í fátækrahverfinu Mathare eftir að fjórir fundust þar látnir. Odinga nýtur mikils stuðnings meðan íbúa Mathare.

