Enski boltinn

Heiðar reyndist sannspár um Aron Einar og Warnock: Djöfulsins veisla!

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
„Djöfulsins veisla!“ var svarið sem Aron Einar Gunnarsson fékk frá Heiðari Helgusyni þegar hann spurði hann við hverju hann mætti búast af Neil Warnock þegar hann tók við Cardiff City.

Aron Einar hefur verið fastamaður hjá Warnock sem virðist hafa mikið álit á íslenska landsliðsfyrirliðanum, nákvæmlega eins og Heiðar spáði fyrir um.

„Ég heyrði í honum og hann sagði djöfulsins veisla! Þá vissi ég nokkurn veginn að þetta væri maður sem kæmi til með að fíla mig í tætlur og öfugt. Heiðar sagði að ef þú leggur þig fram fyrir hann, þá dýrkar hann þig,“ sagði Aron Einar í samtali við Guðmund Benediktsson þegar þeir settust niður og horfðu á Meistaradeild Evrópu.

Viðtalið var sýnt í Messunni á Stöð 2 Sport HD í gær og má nú sjá hér á Vísi.

Heiðar lék undir stjórn Warnocks hjá QPR fyrir nokkrum árum og hann reyndist sannspár um hrifningu hans á Aroni Einari sem hefur verið fastamaður í Cardiff síðan þessi skrautlegi stjóri tók við liðinu. Ekki nóg með það heldur hefur Warnock verið duglegur að hrósa landsliðsfyrirliðanum í fjölmiðlum.

„Ég hef tekið eftir því og séð það. Auðvitað kann maður að meta það. Hann fílar greinilega leikmenn gefa sig í hlutina, fara 100% í tæklingar og gera þetta ekki flókið. Það var nákvæmlega það sem Heiðar talaði um, hann á eftir að fíla þig og þú munt spila alla leikina og vera fyrstur á skýrslu hjá honum. Og þannig hefur verið síðan hann kom,“ sagði Aron Einar sem skoraði fyrir Cardiff um síðustu helgi. Hann ber Warnock vel söguna.

„Hann er mjög klár. Hann nær því besta fram hjá leikmönnum og fær þá til að hlaupa í gegnum veggi fyrir sig,“ sagði Aron Einar um Warnock sem hefur verið lengi í bransanum og stýrt fjölda liða.


Tengdar fréttir

Neil Warnock: Aron Einar er draumur stjórans

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska fótboltalandsliðsins, var fljótt einn af aðalmönnunum í liði Cardiff City eftir að Neil Warnock settist í stjórastólinn hjá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×