Enski boltinn

Koeman segir Wenger alltaf væla yfir dómgæslunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ronald Koeman heilsar Wenger.
Ronald Koeman heilsar Wenger. Vísir/Getty
Ronald Koeman, knattspyrnustjóra Everton, kom það ekkert á óvart að Arsene Wenger, stjóri Arsenal, hafi kvartað undan dómgæslunni eftir að Everton vann Arsenal í gær.

Wenger taldi að Everton hafi aldrei átt að fá hornspyrnuna sem skilaði liðinu sigurmarkinu hans Ashley Williams. Seamus Coleman hafði áður jafnað metin eftir að Alexis Sanchez kom Arsenal í 1-0.

„Ég biðst afsökunar á því að hafa unnið leikinn á dómaramistökum,“ sagði Ronald Koeman af kaldhæðni á blaðamannafundi eftir leikinn.

Koeman vann Arsenal tvisvar sinnum sem knattspyrnustjóri Southampton, 4-0 sigur í desember 2015 og svo 2-0 sigur ellefu mánuðum fyrr.

„Þessi ummæli Wenger koma mér ekki á óvart. Þetta er þriðji heimaleikurinn í röð þar sem ég vinn á móti Arsenal og þrisvar í röð hefur hann kvartað undan dómaranum,“ sagði Koeman.

Everton hefur alls fengið 11 stig á tímabilinu úr leikjum þar sem liðið hefur lent undir.

Arsenal hefur ekki náð að vinna lið undir stjórn Ronald Koeman í fjórum leikjum í röð. Wenger tókst einnig að gera dómarann að aðalhlutverki eftir 4-0 tap en þá hélt hann því fram að fyrstu þrjú mörk Southampton í leiknum hafi verið ólögleg.

Það er hægt að sjá svipmyndir frá leiknum í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×