Erlent

Viðbrögð við fráfalli Castro: "Risi í sögu 20. aldarinnar“

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Vladimir Pútín og Fidel Castro var vel til vina.
Vladimir Pútín og Fidel Castro var vel til vina. Vísir/Getty
Fjöldi þjóðarleiðtoga og stjórnmálafólks hefur tjáð sig vegna fráfalls Fidel Castro, fyrrverandi forseta Kúbu sem lést í nótt níræður að aldri. BBC greinir frá þessu.

Forseti Frakklands Francois Hollande sagði í yfirlýsingu að Castro væri ein af táknmyndum kalda stríðsins enda hafi hann táknað von Kúbu og sjálfstæði landsins frá utanaðkomandi stjórnvöldum í huga Kúbumanna.

Forseti Rússlands, Vladimir Pútín, sendi bróður Castro skilaboð þess efnis að Fidel Castro væri sannlega ein helsta táknmynd hans tíma.

„Hin frjálsa og sjálfstæða Kúba, sem hann og stuðningsmenn hans byggðu, varð að áhrifaríki innan alþjóðlegs samfélags og mikill innblástur fyrir önnur lönd og aðrar þjóðir.“ segir Pútín og nefnir að Castro hafi verið náinn og tryggur vinur Rússlands og hafi lagt góðan grunn að nánu samstarfi landanna. Pútín leggur áherslu á að minning Castro muni ávallt lifa í rússneskum hjörtum.“

Nicolas Maduro, forseti Venesúela, tísti að Fidel og Raul Castro hafi, með skipsferð sinni frá Mexíkó í átt að Kúbu fyrir 60 árum, siglt í átt að frelsi.

Ken Livingstone, fyrrverandi borgarstjóri London, nefnir að Castro hafi verið sankallaður „risi í sögu 20. aldarinnar“ og varði hann gegn gagnrýni.

Mikhail Gorbachev, fyrrverandi leiðtogi Sovétríkjanna, segir Castro hafa staðið upp og gert landið sterkara og varist hetjulega gegn áhrifum Bandaríkjanna. Hann nefnir að þeim hafi verið vel til vina allt til síðasta dags.

„Nú er tími frelsis og lýðræðis!“ skrifar Ileana Ros - Lehtinen, þingmaður fyrir Flórída, og lýsir yfir að nú séu nýir tímar í nánd.

Níu daga þjóðarsorg hefur verið lýst yfir og stefnt er að því að Castro verði jarðaður 4. desember næstkomandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×