Enski boltinn

Balotelli: Mancini uppáhalds þjálfarinn en Rodgers sá versti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Balotelli hrósar Mancini í hástert þótt þeir hafi ekki alltaf átt skap saman.
Balotelli hrósar Mancini í hástert þótt þeir hafi ekki alltaf átt skap saman. vísir/getty
Mario Balotelli segir að Roberto Mancini sé uppáhalds þjálfarinn sinn en Brendan Rodgers sé sá versti.

Balotelli hefur komið víða við á ferlinum þótt hann sé bara 26 ára gamall. Hann hóf ferilinn hjá Inter, fór þaðan til Manchester City, svo til AC Milan, Liverpool, aftur til Milan og í sumar gekk hann svo í raðir Nice sem situr óvænt á toppi frönsku úrvalsdeildarinnar.

Balotelli lék undir stjórn Mancinis hjá Man City og framherjinn ber honum vel söguna.

„Mancini er frábær, ég á honum mikið að þakka,“ sagði Balotelli í samtali við Gazetta dello Sport.

„Ég myndi setja [Lucien] Favre [stjóra Nice] í annað sætið ásamt [José] Mourinho. Sá portúgalski er hæfileikaríkur og hvetjandi, það er synd að okkur hafi sinnast.“

Þrátt fyrir að Jürgen Klopp hafi látið hann fara frá Liverpool segist Balotelli ekki bera neinn kala til Þjóðverjans. Hann varð hins vegar fyrir vonbrigðum með Brendan Rodgers, forvera Klopps hjá Liverpool.

„Í sannleika sagt voru mestu vinbrigðin með Rodgers. Ég naut mín á æfingum hjá honum en samband okkar var skelfilegt,“ sagði Balotelli sem skoraði aðeins eitt deildarmark fyrir Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×