
Íslamska ríkið, eða Daish-samtökin, náðu Mosúl á sitt vald í júní árið 2014 og hefur haldið þar uppi ógnarstjórn, rétt eins og víðar í Írak og Sýrlandi þar sem samtökin hafa náð nokkuð stóru svæði á sitt vald.
Hjálparsamtök vara við því að almenningur í borginni og næsta nágrenni verði í stórhættu. Þar býr um ein og hálf milljón manna. Búast megi við að allt að 700 þúsund þeirra þurfi að flýja að heiman og leita á náðir hjálparstofnana. Nauðsynlegt sé að vera vel undir það búinn, ekki síst vegna þess að nú er vetur að ganga í garð.
Nú þegar hafa um 3,3 milljónir manna hrakist frá heimilum sínum í Írak vegna borgarastyrjaldarinnar þar. Þetta er næstum því tíundi hver íbúi landsins.
Þúsundir Kúrda í Peshmerga-hersveitunum hófu sóknina í gær norðaustan við Mosúl.
Haider al-Abadi, forsætisráðherra Íraks, skýrði frá þessu í sjónvarpsávarpi til þjóðarinnar. Hann sagðist bjartsýnn.
„Íraski fáninn verður dreginn að húni í miðri Mosúlborg og í hverju einasta þorpi og hverju horni mjög fljótlega,“ sagði hann.
Ashton B. Carter, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði sóknina marka mikilvæg tímamót í baráttunni gegn Íslamska ríkinu.
Stefnt er að því að innrásarliðið umkringi borgina fyrst, bæði til að einangra hana og til að koma í veg fyrir að liðsmönnum Íslamska ríkisins takist að flýja brott. Að því búnu verði haldið inn í borgina.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.