Íslenski boltinn

Róbert Örn og Trausti með tvær af markvörslum ársins | Myndbönd

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Trausti og Róbert Örn.
Trausti og Róbert Örn. vísir/ernir/vilhelm
Róbert Örn Óskarsson, markvörður Víkings í Pepsi-deild karla í fótbolta, og Trausti Sigurbjörnsson, markvörður Þróttar, áttu tvær af markvörslum ársins í deildinni þetta sumarið í síðustu umferð.

Róbert Örn stóð vaktina gegn KR og var maður leiksins í sögulegum 1-0 sigri Víkinga í Fossvoginum en Trausti fékk á sig tvö mörk í 2-0 sigri Íslandsmeistaranna gegn nýliðunum.

KR-ingar sóttu stíft að marki Víkings en Róbert varði allt sem á markið kom og í fyrri hálfleik bauð hann upp á tvær magnaðar markvörslur. Í bæði skiptin átti danski sóknarmaðurinn Kennie Chopart skot að marki.

Fyrst varði hann skot Choparts sem fór í Dofra Snorrason með öxlinni upp í slána og þremur mínútum síðar var komið að einni af vörslum ársins. Chopart smellhitti þá boltann eftir sendingu frá hægri en Róbert spyrnti sér upp í samskeytin og sló boltann yfir.

Markvarsla Trausta var ekki síðri þó hún hafi verið frá samherja. Það er bara honum að þakka að Hreinn Ingi Örnólfsson skoraði ekki sjálfsmark þegar miðvörðurinn fékk boltann í sig eftir fyrirgjöf Böðvars Böðvarssonar, bakvarðar FH.

Boltinn stefndi í bláhornið þegar Trausti skutlaði sér ótrúlega á eftir honum og varði meistaralega. Hann tók svo frákastið einnig frá Steven Lennon.

Þessar frábæru vörslur Róberts Arnar og Trausta má sjá í myndunum hér að neðan sem eru úr Pepsi-mörkunum en umferðin var gerð upp í gærkvöldi.

Tvær svakalegar vörslur Róberts fyrir Víking gegn KR: Mögnuð markvarsla Trausta frá samherja:

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×