Erlent

Sendiherra Íslands í Frakklandi: „Að sjá núna óttann sem þarna ríkir er ólýsanlegt“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Berglind Ásgeirsdóttir er sendiherra Íslands í Frakklandi.
Berglind Ásgeirsdóttir er sendiherra Íslands í Frakklandi. vísir
Berglind Ásgeirsdóttir sendiherra Íslands í Frakklandi segir að gleðidagurinn 14. júlí, þjóðhátíðardagur Frakka, hafi breyst í sorgardag í einu vetfangi þegar maður keyrði vörubíl inn í mannfjölda í miðborg Nice í gærkvöldi. Fólk var þar samankomið til þess að halda upp á Bastilludaginn.

„Fólk er hálf lamað af sorg. Ég held að líka að það sem fái enn meira á fólk sé að það eru börn á meðal látinna og það er talað um að það séu yfir 50 börn á sjúkrahúsi,“ segir Berglind en rætt var við hana í beinni útsendingu í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Sjá einnig: Allt um ódæðið í Nice

Árásin í Nice sé þriðja hryðjuverkaárásin í Frakklandi á einu og hálfu ári. Ellefu létust í hryðjuverkaárás á ritstjórnarskrifstofur Charlie Hebdo í París í janúar í fyrra og þá létust 130 í hryðjuverkaárásum í París í nóvember síðastliðnum.

Víða í Evrópu sem fólk upplifir hryðjuverkaógn

Berglind segir enga sérstaka skýringu vera á því að Frakkar verði meira fyrir barðinu á hryðjuverkamönnum en aðrar Evrópuþjóðir.

„Þetta er náttúrulega víða í Evrópu sem fólk upplifir hryðjuverkaógn. Nú hefur verið aukið eftirlit mjög víða og í gær til að mynda þá tók ég eftir því að það voru 11.500 lögreglumenn við störf í París einmitt til að tryggja öryggi.“

Aflétta átti sérstökum neyðarlögum vegna hryðjuverkaógnar í Frakklandi síðar í mánuðinum en þau verða nú í gildi í að minnsta kosti þrjá mánuði í viðbót. Berglind segir að þau skerði frelsi fólks en um leið sé verið að tryggja öryggi. Aðspurð hvort hún haldi að árásin hafi áhrif á stjórnmálalífið í Frakklandi, til dæmis hvað varðar uppgang hægri öfgaflokka segir hún að svo geti verið.

Hafi þau áhrif að fólk fari varlegar

„En ég held að fyrst og fremst hafi þetta þau áhrif að fólk fari varlegar. Það forðast almenningssamgöngur, það vill síður láta börnin sín vera úti að leika. Þetta voru viðbrögðin við hryðjuverkunum í fyrra en svo jafnar fólk sig svo það er alveg ómögulegt að segja hvaða afleiðingar þetta hefur,“ segir Berglind.

Hún bendir jafnframt á að þetta gerist í Nice sem sé mikil ferðamannaborg en milljónir ferðamanna koma árlega til borgarinnar.

„Það er staðreynd að það komu mun færri ferðamenn til Parísar í kjölfar hryðjuverkanna en ég held að Suður-Frakkland hafi áfram notið mikilla vinsælda en nú er fólk skelfingu lostið þar. Það eru auðvitað margir Íslendingar núna sem voru í Nice fyrir hálfum mánuði í tengslum við knattspyrnuna sem hafa gengið þessa götu og séð hversu stórkostlegur staður þetta er og að sjá núna óttann sem þarna ríkir er ólýsanlegt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×