Leiðtogar Evrópusambandsins segja að Bretland megi ekki fresta því að ganga úr Evrópusambandinu. Forseti Evrópuráðsins og forseti Evrópuþingsins hittust á sérstökum neyðarfundi í dag eftir úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar um brotthvarf Breta úr ESB.
Í yfirlýsingu Jean-Claude Juncker og Martin Schulz segir að þeir virði ákvörðun Breta um að hverfa úr ESB en að þeir harmi ákvörðunina. Telja þeir mikilvægt að leiðtogar Bretlands fresti því ekki að tilkynna formlega um úrsögn Bretlands úr ESB svo hefja megi samningaviðræður um skilmála brotthvarfs Breta.
Sjá einnig: Hvað tekur nú við eftir ákvörðun Breta um að yfirgefa Evrópusambandið?
Segjast þeir reiðubúnir til þess að hefja viðræður sem fyrst. David Cameron, fráfarandi forsætisráðherra Bretlands, sem mun hætta í haust, segir að það verði hlutverk nýs forsætisráðherra að tilkynna formlega um úrsögnina. Boris Johnson, sem þykir líklegt forsætisráðherraefni, segir að ekkert liggi á því að tilkynna formlega um úrsögnina.
Evrópuþingið mun halda sérstakan þingfund í næstu viku til að ræða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar og þá munu utanríkisráðherrar Þýskalands, Frakklands, Hollands, Ítalíu, Belgíu og Lúxemborg ræða málin á sérstökum fundi í Berlín á morgun.
Um leið og tilkynnt er um úrsögn Bretlands úr ESB hafa Bretar og ESB tvö ár til þess að semja um skilmála brotthvarfsins. Alls óvíst er hvað tekur við en væntanleg úrsögn Bretlands er fordæmalaus þar sem ekkert ríki hefur áður sagt sig úr ESB.
Leiðtogar ESB: Bretland yfirgefi sem fyrst

Tengdar fréttir

Útganga Breta úr ESB muni hafa mikil áhrif á Ísland
Dósent í stjórnmálafræði býst við að ákvörðun Breta um að ganga úr Evrópusambandinu muni hafa mikil áhrif á Ísland.

Lilja Dögg: Bretar að yfirgefa Evrópusambandið en alls ekki að yfirgefa Evrópu
Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra segir að efnahagsleg tenging Breta við Evrópu og Ísland verði ekki frábrugðin því sem hún er í dag.

Bretar kjósa að yfirgefa ESB
Bretar hafa ákveðið að yfirgefa Evrópusambandið eftir 43 ára veru í sambandinu eftir sögulegar kosningar sem vafalaust munu hafa víðtækar afleiðingar.

Hvað tekur nú við eftir ákvörðun Breta um að yfirgefa Evrópusambandið?
Bretland er klofið eftir niðurstöðu Brexit-atkvæðagreiðslunnar.