Erlent

Fjórtán tíma málþóf á þingi vegna árásarinnar í Orlando

Samúel Karl Ólason skrifar
Chris Murphy.
Chris Murphy. Vísir/Getty

Öldungadeildarþingmaðurinn og Demókratinn Chris Murphy leiddi í gær tæplega fimmtán klukkustunda málþóf á öldungadeildarþingi Bandaríkjanna. Með málþófi sínu vildi Murphy fá í gegn að kosið yrði um frumvarp um hert lög varðandi byssueign.

Að mestu talaði Murphy fyrir nánast tómum þingsal en aðrir þingmenn Demókrata fluttu einnig ræður.

Byssur af gerðinni AR-15 hafa verið notaðar í tíu mannskæðar skotárásir frá árinu 2011.Vísir/GraphicNews

Tilefnið er skotárásin á skemmtistaðinn Pulse í Orlando um helgina. 49 voru myrtir og 53 særðir, þar af nokkrir alvarlega. Frumvarpið sem Murphy vill að kosið verði um felur í sér umfangsmeiri bakgrunnskannanir byssukaupenda og að ólöglegt væri að selja skotvopn til grunaðra hryðjuverkamanna.

Þegar Murphy steig úr pontu sagðist hann hafa fengið vilyrði Repúblikana um að kosið yrði um tillögur hans, en ólíklegt er að þær verði samþykktar á öldungaþinginu þar sem Repúblikanar eru í meirihluta.

Murphy er þingmaður frá Connecticut þar sem Sandy Hook fjöldamorðið var framið árið 2012. 20 börn og sex kennarar voru skotin til bana af árásarmanni. Þingmaðurinn sagði að hann gæti ekki horft í augu ættingja þeirra barna sem voru myrt og sagt þeim að síðan þá hefði þingheimur ekkert brugðist við til að draga úr aðgengi fólks að kraftmiklum skotvopnum.

Þingmaðurinn endaði málþóf sitt á að fjalla um ungan dreng sem var myrtur í Sandy Hook en myndband af þeim hluta má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×