Erlent

Frambjóðendur rökræða um hvernig skilgreina skuli árásina

Þórgnýr Albert Einarsson skrifar
Íbúar Washington DC halda á skiltum til minningar um fórnarlömb árásarinnar í Orlando.
Íbúar Washington DC halda á skiltum til minningar um fórnarlömb árásarinnar í Orlando. Nordicphotos/AFP
Forsetaframbjóðendur í Bandaríkjunum hafa deilt um skilgreiningar á skotárásinni í Orlandó á sunnudag.

Donald Trump, frambjóðandi repúblikana, hefur kallað eftir því að Hillary Clinton, líklegur frambjóðandi demókrata, kalli árásina hryðjuverk róttækra íslamista“. Repúblikanar hafa kallað eftir því að demókratar noti slíka skilgreiningu á hryðjuverkum undanfarin misseri.

Donald TrumpVísir/AFP
Clinton sagði hins vegar að skilgreiningar skiptu ekki máli í viðtali á CNN í gær. „Mér finnst meiru máli skipta hvað við gerum en hvað við segjum. Það sem skiptir máli er að við náðum [Osama] bin Laden, ekki hvað við kölluðum hann.“ Clinton hefur hins vegar kallað árásina hatursglæp gegn hinsegin fólki. Það hefur Trump ekki gert.

„Leiðtogar okkar eru veikir. Ég sagði að þetta myndi gerast og þetta mun einungis versna. Ég er að reyna að bjarga mannslífum og koma í veg fyrir næstu árás. Við höfum ekki efni á pólitískri rétthugsun núna,“ sagði Trump í yfirlýsingu sinni í fyrrinótt.

Hillary Clinton
Tengsl árásarmannsins, Omars Mateen, við hryðjuverkasamtök eru óljós. Heimildir CNN herma að Mateen hafi verið yfirheyrður af Alríkislögreglu Bandaríkjanna vegna hugsanlegra tengsla við hryðjverkahópa og fullyrða að hann hafi svarið hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki hollustueið í símtali við neyðarlínuna á sunnudag.

Árásin er sú mannskæðasta í sögu Bandaríkjanna en skotárásir eru tíðar í landinu. Alls voru rúmlega 350 skotárásir þar sem fleiri en fjórir eru skotnir í Bandaríkjunum á síðasta ári.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 14. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×