Erlent

Dánarorsök Ali var ígerð

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Muhammad Ali var einn þekktasti íþróttamaður heims.
Muhammad Ali var einn þekktasti íþróttamaður heims. vísir/getty
Dánarorsök hnefaleikakappans Muhammad Ali var ígerð að sögn fjölskyldu hans. Var ígerðin tilkomin vegna ótilgreindra náttúrulegra orsaka en Ali lést á föstudagskvöld á spítala í Phoenix í Arizona, 74 ára aldri. Ali var með Parkinson-sjúkdóminn en hafði auk þess verið að glíma við veikindi í öndunarfærum dagana áður en hann lést.

Opinber jarðarför Ali verður haldinn í heimabæ hans Louiseville í Kentucky á föstudag. Á meðal þeirra sem halda munu ræður er Bill Clinton fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. Þá minntust bæði knattspyrnugoðsögnin Pele og Barack Obama forseti Bandaríkjanna Ali í gær. Sagði Obama að Ali hefði hrist upp í heiminum og að heimurinn væri betri fyrir vikið.

Ali var einn þekktasti íþróttamaður sögunnar. Hann fæddist í Kentucky-ríki árið 1942 og var skírður Cassius Marcellus Clay. Hann öðlaðist fyrst heimsfrægð þegar hann vann gullverðlaun í hnefaleikum á Ólympíuleikunum í Róm árið 1960.

Með sigri sínum á Sonny Liston árið 1964 varð Ali heimsmeistari í fyrsta sinn en hann átti eftir að vera fyrstur allra til að vinna þrjá heimsmeistaratitla í þungavigt. Hlaut hann viðurnefnið „Sá besti“ (e. The Greatest) fyrir erfiðið. Hann lagði hanskana á hilluna árið 1981 og hafði þá unnið 56 af 61 slag á ferlinum.

Hann var þó einnig þekktur fyrir ummæli sín og störf utan hnefaleikahringsins. Ali var skáld, með eindæmum orðheppinn og ötull baráttumaður fyrir mannréttindum svertingja. Hann tók upp íslamstrú og nafnið Muhamad Ali á sjöunda áratugnum.

Þá var hann sviptur keppnisréttindum í fjögur ár eftir að hann óhlýðnaðist herkvaðningu vegna andstöðu sinnar við Víetnam-stríðið.

Hann greindist með Parkinsonsjúkdóm stuttu eftir að íþróttaferli hans lauk. Hann kom reglulega fram opinberlega nokkurn veginn allt til dauðadags.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×