Erlent

Fjöldi fjallgöngumanna veikir á Everest

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/EPA
Þrír fjallgöngumenn létu lífið á Everestfjalli um helgina og tveggja er saknað. Þeir þrír sem eru látnir létust úr veikindum, en um 30 manns eru nú veikir á fjallinu með kalsár eða hæðarsýki. Fjöldi fjallgöngumanna hafa lagt leið sína upp Everest í maí, en síðustu tvö ár hafa mjög fáir komist upp vegna náttúruhamfara.

Átján létu lífið í hlíðum Everest vegna jarðskjálftanna í fyrra og árið þar áður létust sextán sjerpar í snjóflóði.

Þar sem fjallið er nú opið aftur og veður þykir gott hafa fjölmargir lagt af stað á hæsta tind heims. Nærri því fjögur hundruð fjallgöngumenn hafa komist á tind Everest frá 11. maí frá Nepal. Þá hafa einhverjir komist á tindinn Kína-megin, en þeirra á meðal er nepölsk kona sem fór á tindinn í sjöunda sinn.

Þeir sem hafa látið lífið eru frá Indlandi, Hollandi og Ástralíu. Þá hefur ekkert spurst til tveggja Indverja frá því á föstudaginn.

Þau Eric Arnold og Maria Strydom dóu um helgina og í nótt dó Subhash Paul, frá Indlandi. Öll létu þau lífið vegna veikinda á leið niður fjallið. Auk þeirra lést sjerpi á fimmtudaginn þegar hann féll um tvö þúsund metra í hlíðum Everest, eða af fjórða hæsta tindi heims, sem einnig má finna á fjallinu.

Allt í allt er vitað til þess að rúmlega 250 manns hafi látið lífið á Everestfjalli frá því þegar Edmund Hillary og Tenzing Norgay voru fyrstir á tind þess árið 1953.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×