Erlent

Sprenging á helstu verslunargötu Istanbúl

Atli Ísleifsson skrifar
Myndir hafa birst af fólki á hlaupum, en sjúkrabílar eru á vettvangi og þyrlur sveima yfir hverfinu.
Myndir hafa birst af fólki á hlaupum, en sjúkrabílar eru á vettvangi og þyrlur sveima yfir hverfinu. Mynd/Twitter
Nokkrir særðust í sprengingu sem varð á Istiklal-stræti, helstu verslunargötu Istanbúlborgar, í morgun.

Í frétt CNN segir að óstaðfestar heimildir hermi að tveir hið minnsta hafi látið lífið og sjö særst í sjálfsvígssprengjuárás.

Myndir hafa birst af fólki á hlaupum, en sjúkrabílar eru á vettvangi og þyrlur sveima yfir hverfinu.

37 manns létu lífið í sjálfsvígssprengjuárás í tyrknesku höfuðborginni Ankara síðastliðinn sunnudag. Þá fórust þrettán manns í sjálfsvígssprengjuárás á Sultanahmet-torgi í Istanbúl í janúar, aðallega þýskir ferðamenn.

Mikil hætta er talin á hryðjuverkaárásum í Tyrklandi og létu þýsk stjórnvöld til að mynda loka sendiráði sínu í Ankara fyrr í vikunni og ræðismannaskrifstofu og skóla í Istanbúl.

Uppfært 11:02:

CNN greinir frá því að fjórir hafi látið lífið og tuttugu særst í sjálfsvígssprenjuárásinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×