Erlent

Merkel vill herða reglur um hælisleitendur

Atli Ísleifsson skrifar
Angela Merkel Þýskalandskanslari fundaði með öðrum leiðtogum Kristilegra demókrata í Mainz í dag.
Angela Merkel Þýskalandskanslari fundaði með öðrum leiðtogum Kristilegra demókrata í Mainz í dag. Vísir/AFP
Angela Merkel Þýskalandskanslari hefur lagt til breytingar á lögum um hælisleitendur sem mun auðvelda þýskum yfirvöldum að vísa hælisleitendum sem gerast brotlegir við lög úr landi.

Merkel leggur til breytingarnar í kjölfar þeirra árása sem beindust gegn konum í Kölnarborg á gamlárskvöld. Fórnarlömb segir karlmenn af arabískum og norður-afrískum uppruna hafa staðið að árásunum. Margir hafa gagnrýnt ákvörðun Merkel um að opna landamæri Þýskalands fyrir flóttafólki og segja árásirnar eina afleiðingu stefnu hennar.

Fjölmargir hafa einnig gagnrýnt lögreglu Kölnar og hvernig hún hefur tekið á málinu. Lögreglustjóra borgarinnar var vikið úr starfi í gær.

Merkel fundaði með öðrum leiðtogum Kristilegra demókrata í Mainz í morgun og sagði nauðsynlegt að fólk gerði sér grein fyrir því að ef menn gerast brotlegir við lög þá hafi slíkt afleiðingar í för með sér.

Núgildandi lög gera ráð fyrir að einungis sé hægt að vísa hælisleitendum úr landi, hafi þeir verið dæmdir til að minnsta kosti þriggja ára fangelsisvistar og að því gefnu að líf þeira sé ekki talið í hættu í heimalandinu.

Þýska þingið þarf nú að samþykkja tillögurnar.


Tengdar fréttir

Merkel vill allt upp á borðið

Rúmlega 30 manns handteknir í Köln vegna ólátanna á gamlárskvöld. Átján þeirra eru hælisleitendur. Lögreglustjóranum í Köln vikið úr embætti tímabundið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×