Íslenski boltinn

Hrafnhildur í Val

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hrafnhildur í leik með Selfossi.
Hrafnhildur í leik með Selfossi. vísir/ernir
Hrafnhildur Hauksdóttir, einn öflugasti leikmaður Selfoss síðustu ár, er gengin í raðir Vals í Pepsi-deild kvenna. Hún skrifar undir tveggja ára samning.

Hrafnhildur hefur verið ein af máttarstólpunum í liði Selfoss síðustu ár, en Selfoss féll niður í fyrstu deild í sumar. Hún á að baki 68 leiki fyrir Selfoss.

„Helstu ástæðurnar fyrir því að ég valdi Val er að mér leist ótrúlega vel á bæði leikmenn og þjálfara og það er alveg greinilegt að hér er mikill metnaður í gangi," sagði Hrafnhildur í samtali við Val.is.

„Það býr mikil reynsla í þessu liði og ég hlakka mikið til þess að læra af stelpunum og það skemmir líka ekki fyrir að það var alltaf draumurinn að spila fyrir Val þegar ég yrði eldri."

Hrafnhildur lék sín fyrstu A-landsleiki á árinu, en hún hefur leikið 21 U17-ára og U19-ára landsleiki fyrir Ísland.

„Valur er einn af stóru klúbbunum á landinu og þegar ég var að alast upp var kvennaliðið langbest á landinu. Valur er með langa sögu og ég hlakka mikið til að taka þátt í henni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×