Erlent

Segir grófum ummælum ætlað að fella sig

guðsteinn bjarnason skrifar
Feðginin Marine og Jean-Marie Le Pen deila hart þessa dagana.
Feðginin Marine og Jean-Marie Le Pen deila hart þessa dagana. fréttablaðið/EPA
Marine le Pen segir föður sinn ekki hafa neitt leyfi til þess að taka flokk þeirra beggja, Þjóðfylkinguna, í gíslingu, jafnvel þótt hann sé heiðursforseti flokksins.

„Jean-Marie Le Pen virðist sveiflast á milli þess að stefna öllu í auðn og að fremja pólitískt sjálfsvíg,“ segir dóttir hans í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í gær.

Hún lýsir þar andstöðu við áform hans um að bjóða sig fram til héraðskosninga í Provence-Alpes-Côte d‘Azur síðar á árinu. Hún tók við af föður sínum sem leiðtogi flokksins árið 2011 og hefur reynt að draga úr því öfgakennda yfirbragði sem jafnan hefur fylgt þessum umdeilda flokki hægri þjóðernissinna.

Faðir hennar hefur jafnan verið þekktur fyrir gróft orðaval í yfirlýsingum sínum, ekki síst þegar hann talar um útlendinga, en einnig þegar hann talar um andstæðinga sína almennt.

„Hin grófu ögrandi ummæli hans virðast sett fram í því markmiði að fella mig, en um leið að veita þessari hreyfingu, umgjörð hennar, frambjóðendum, fylgi og félögum þungt högg,“ segir í yfirlýsingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×