Erlent

„Myndi ég gera stórmál úr því ef ISIS lýsti yfir stríði við Ísland og Ísland myndi ráðast á okkur?“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hollenski ISIS-liðinn Israfil Yilmaz hefur að undaförnu notað Tumblr-síðu sína til þess að svara spurningum um lífið á landsvæði ISIS.
Hollenski ISIS-liðinn Israfil Yilmaz hefur að undaförnu notað Tumblr-síðu sína til þess að svara spurningum um lífið á landsvæði ISIS. Vísir/Getty
„Myndi ég gera stórmál úr því ef ISIS lýsti yfir stríði við Ísland og Ísland myndi ráðast á okkur? Auðvitað ekki.“

Svo segir hollenski ISIS-liðinn Israfil Yilmaz sem hefur að undaförnu notað Tumblr-síðu sína til þess að svara spurningum um lífið á landsvæði ISIS.

Ísland kom upp er hann svaraði spurningum um hryðjuverk ISIS í París en hann taldi þau hafa verið eðlileg viðbrögð við loftárásum Frakka á ISIS í Sýrlandi og Írak.

„Myndi ég gera stórmál úr því ef ISIS lýsti yfir stríði við Ísland og Ísland myndi ráðast á okkur? Auðvitað ekki,” sagði Yilmaz. „Svona er lífið í stórborginni, það er ekki hægt að lýsa yfir stríði gegn múslimum og ætlast svo til þess að fá að vera í friði bara vegna þess að þú býrð lengst í burtu. Þetta er eitthvað sem allir skilja, ekki satt?“

Skjáskot af Tumblr-síðu YilmazSkjáskot
Myndi faðma mömmu sína og borða sushi ef hann sneri aftur til Hollands

Yilmaz var áður hermaður í hollenska hernum en gekk til liðs við ISIS árið 2013 og hefur barist með samtökunum síðan.

Hann er fæddur 1987 og á konu og börn sem búa með honum innan landsvæðis ISIS í Sýrlandi og Írak. Hollenska sjónvarpsstöðin NOS spurði hann að því hvað hann myndi gera ef hann myndi einhverntímann snúa aftur heim til Hollands og svarið gæti komið á óvart.

Hann sagðist aldrei ætla að snúa aftur til Hollands til þess að fremja hryðjuverk heldur myndi hann líklega „borða sushi, drekka Dr. Pepper og faðma mömmu innilega.“

Yilmaz mun þó líklega ekki fá tækifæri til þess enda má hann ekki snúa aftur en hann er á lista hollenskra yfirvalda yfir hryðjuverkamenn.

Svo virðist sem að Tumblr-síðu Yilmaz hafi nú verið lokað en samfélagsmiðlar eins og Twitter og Tumblr loka reglulega á síður sem tengjast ISIS, til að mynda hafði Yilmaz stofnað fjórar mismunandi aðganga á Twitter áður en hann gafst upp á því vegna hversu fljótt var lokað á þá.


Tengdar fréttir

Hver var Abdel-Hamid Abu Oud?

Eldri systir Abu Oud segir að hann hafi ekki sótt moskur á sínum yngri árum eða sýnt trúmálum mikinn áhuga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×