Erlent

Neyðarástand í þrjá mánuði til viðbótar

Guðsteinn Bjarnason og Þórgnýr Einar Albertsson skrifa
Franska þingið samþykkti í gær framlengja neyðarástand í ríkinu í þrjá mánuði.
Franska þingið samþykkti í gær framlengja neyðarástand í ríkinu í þrjá mánuði. Nordicphotos/AFP
Franska þingið samþykkti í gær að neyðarástand verði í gildi í landinu þrjá mánuði til viðbótar.

François Hollande forseti lýsti yfir neyðarástandi um síðustu helgi, eftir að herskáir íslamistar höfðu myrt yfir hundrað manns í hryðjuverkum í París.

Meðan neyðarástand er í gildi hefur franska lögreglan og önnur yfirvöld víðtækar heimildir til að herða eftirlit, gera húsleitir, handsama fólk, banna samkomur og jafnvel takmarka fréttaflutning.

Frönsk yfirvöld hafa jafnframt staðfest að Abdelhamid Abaaoud, Belgíumaðurinn sem talinn er hafa lagt á ráðin um árásirnar í París, hafi látið lífið í áhlaupi lögreglunnar á íbúð í St. Denis hverfinu á miðvikudag.

Abdelhamid Abaaoud.Nordicphotos/AFP
Enn er þó leitað að félaga hans, Salah Abdeslam, sem talinn er hafa tekið þátt í sprengjuárásunum á föstudag en sloppið til Belgíu.

Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, sagði í gærkvöldi að yfirvöld í Frakklandi vissu ekki hvar Abdeslam væri niðurkominn, hvort hann væri í Belgíu, enn í Frakklandi eða annars staðar. Hann sagði einnig að nokkrir árásarmanna hefðu nýtt sér flóttamannavandann til að smeygja sér inn til Frakklands. „Við vitum ekki á þessu stigi rannsóknar hvort fleiri hópar eða einstaklingar sem tengjast störfum séu enn að störfum í París,“ sagði Valls enn fremur.

Þá sagði Valls á þingi í gær að hætta sé á því að hryðjuverkamenn geri efnavopnaárásir í Evrópu.

Valls útskýrði þetta þó ekki frekar, heldur lét sér nægja að segja að mögulega geti verið hætta á þessu hvenær sem er. 


Tengdar fréttir

Hver var Abdel-Hamid Abu Oud?

Eldri systir Abu Oud segir að hann hafi ekki sótt moskur á sínum yngri árum eða sýnt trúmálum mikinn áhuga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×