Erlent

Pyntingar og mannát í Suður-Súdan

Samúel Karl Ólason skrifar
Í skýrslunni segir að lík hafi verið svívirt og brennd og fólk hafi verið neytt til að drekka blóð úr líkum og að borða brennt hold.
Í skýrslunni segir að lík hafi verið svívirt og brennd og fólk hafi verið neytt til að drekka blóð úr líkum og að borða brennt hold. Vísir/EPA
Borgarastyrjöld hefur nú geisað í Suður-Súdan í tæp tvö ár. Tugir þúsunda hafa fallið í átökunum þar í landi og tvær milljónir hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Afríkubandalagið hefur nú sakað stríðandi fylkingar um að beita íbúa miklu ofbeldi og misþyrmingum.

Rannsóknarnefnd Afríkubandalagsins birti í dag skýrslu, þar sem fram kemur að fólk hafi þurft að þola pyntingar, nauðganir og jafnvel hefur fólk verið neytt til að borða mannakjöt. Hins vegar er tekið fram í skýrslunni að ekki hafi verið framið þjóðarmorð í átökunum.

Í skýrslunni segir að lík hafi verið svívirt og brennd og fólk hafi verið neytt til að drekka blóð úr líkum og að borða brennt hold. Íbúar hafa komið einstaklega illa út úr átökunum. Rannsakendur fundu til dæmis merki um fjöldagrafir á þremur stöðum.

Samkvæmt Guardian kemur einnig fram að átökin hafi ekki byrjað vegna tilraunar til valdaráns fyrrverandi varaforseta Súdan, eins og áður hefur verið talið. Heldur hafi átökin byrjað vegna deilna innan forsetavarða landsins sem hafi byrjað að berjast sín á milli.

Þá hafi meðlimir mismunandi þjóðarbrota farið að berjast við hvorn annan upp úr því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×