Erlent

Putin heitir Assad áframhaldandi aðstoð

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá fundi Putin og Assad í Moskvu fyrir níu árum.
Frá fundi Putin og Assad í Moskvu fyrir níu árum. Vísir/AFP
Vladimir Putin, forseti Rússlands, hét því í dag að halda áfram að veita Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, áframhaldandi hernaðaraðstoð. Forsetinn hvatti aðrar þjóðir til að veita stjórnarhernum einnig „hernaðarlega aðstoð“. Hann sagði að straumur flóttamanna til Evrópu væri enn stærri í dag, ef Rússar hefðu ekki aðstoðað stjórnvöld Sýrlands.

Moskva hefur stutt dyggilega við bakið á Assad og fylgismönnum hans frá því að borgarastyrjöldin hófst árið 2011. Þeir segjast senda hergögn til Sýrlands sem notuð séu til að berjast gegn Íslamska ríkinu.

„Við munum styðja stjórnvöld Sýrlands gegn sóknum hryðjuverkamanna,“ sagði Putin í dag. „Við veitum stjórnvöldum, og munum veita, nauðsynlega hernaðarlega aðstoð og við hvetjum aðrar þjóðir til að ganga til liðs við okkur.“

Samkvæmt BBC segja yfirvöld í Washington þó að stuðningur Rússa við Assad sé ekki uppbyggilegur.

Rússar eru sagðir vera að undirbúa herstöð undir notkun við strönd Sýrlands. Þar hafa þeir komið fyrir skriðdrekum og minnst 200 hermönnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×