Erlent

Skotárásin í Virginíu: Flanagan ítrekað áminntur í starfi vegna ógnandi hegðunar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vester Flanagan.
Vester Flanagan. vísir/afp
Vester Flanagan, maðurinn sem skaut tvo fréttamenn sjónvarpsstöðvarinnar WDBJ7 til bana í gær í Virginíu-fylki í Bandaríkjunum, var sagt að leita sér læknisaðstoðar árið 2012.

Flanagan starfaði á WDBJ7 og voru það yfirmenn hans á stöðinni sem hvöttu hann til að leita til læknis þar sem samstarfsmenn hans höfðu ítrekað kvartað yfir honum.

Orðljótur og ógnandi í hegðun

Breska dagblaðið Guardian hefur undir höndum fjölda minnisblaða sem Dan Dennison, þáverandi fréttastjóri WDBJ7, sendi Flanagan og stjórnendum á stöðinni árið 2012. Flanagan var þá ávíttur í starfi fyrir að taka bræðisköst og fyrir að vera orðljótur og ógnandi gagnvart samstarfsmönnum sínum.

Fyrstu minnisblöðin voru send í maí 2012, aðeins tveimur mánuðum eftir að Flanagan hóf stórf á WDBJ7.

„Á seinustu sex vikum hefur þú hagað þér á þann veg, oftar en einu sinni, að samstarfsmönnum þínum hefur þótt þeim ógnað og liðið óþægilega,“ segir í minnisblaðinu.

Þurfti að hringja á lögregluna þegar hann sagði Flanagan upp

Í júlí 2012 var Flanagan í raun skipað að leita sér aðstoðar vegna hegðunar sinnar. Fréttastjórinn gerði honum það ljóst að ef hann myndi ekki leita sér aðstoðar myndi hann missa vinnuna. Flanagan var svo rekinn í mars 2013.

Í einu minnisblaðanna er nokkuð nákvæm lýsing á því þegar Flanagan var sagt upp og viðbrögðum hans:

„Ég ætla ekki að fara. Þið munuð þurfa að hringja á helvítis lögguna. Hringið á lögguna. Ég ætla ekki að fara. Ég ætla að vera með vesen og þetta mun vera á fyrirsögnum dagblaðanna.“

Flanagan strunsaði svo út úr herberginu og fréttastjórinn hringdi á lögregluna til að fara með hann út úr byggingunni.

„Draumur minn varð að martröð“

Flanagan höfðaði mál gegn sjónvarpsstöðinni vegna brottrekstrarins og kenndi öllum um nema sjálfum sér:

„Ég umturnaði lífi mínu þegar ég ferðaðist þvert yfir landið fyrir þetta starf en draumur minn varð að martröð,“ sagði Flanagan í bréfi sem hann skrifaði til dómarans.

Eins og minnisblöðin sýna var Flanagan verulega ósáttur við uppsögn sína en hann framdi sjálfsmorð eftir að hafa skotið þau Alison Parker og Adam Ward, starfsmenn WDBJ7, til bana í beinni útsendingu í gær.


Tengdar fréttir

Árásarmaðurinn er látinn

Vester Flanagan sem einnig gekk undir nafninu Bryce Williams, skaut tvær manneskjur til bana og særði eina konu í beinni útsendingu í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×