Erlent

LBGT fólk í Úganda fór í gleðigöngu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hinsegin dagar í Úganda náðu hápunkti sínum í dag.
Hinsegin dagar í Úganda náðu hápunkti sínum í dag. vísir/afp
Það var ekki aðeins á Íslandi sem hinsegin fólk fór í gleðigöngu því hið sama gerðu fólk í Úganda. Talsverður munur er á stöðu hinsegin fólks hér og þar en samkynhneigð er ólögleg í Úganda.

Viðburðurinn var haldinn fyrir utan höfuðborgina Kampala og er hápunktur hátíðarhalda sem staðið hafa yfir í vikunni. Fyrr í vikunni fór fram fegurðarsamkeppni samkynhneigðra og einn dagurinn var tileinkaður transfólki. Fólk kom saman, dansaði og veifaði regnbogafánanum til að vekja athygli á málstaðnum.

Þeir sem verða uppvísir að samkynhneigð í Úganda eiga yfir höfði sér fangelsisrefsingu en Úganda er eitt þeirra 72 landa þar sem samkynhneigð er enn ólögleg. Flest löndin eru í Miðausturlöndum, Norður- og Mið-Afríku.

Í fyrra reyndi þjóðþing landsins að setja á lög þar sem lífstíðarfangelsi yrðu viðurlögin við samkynhneigð. Fyrir ári síðan komst hæstiréttur landsins að þeirri niðurstöðu að lögin stæðust ekki stjórnarskrá og var hátíðarhöldunum því valinn dagur nú. Fyrr í vikunni komst hæstiréttur Úganda að þeirri niðurstöðu að óheimilt væri að skila brúðargjaldi kæmi til skilnaðar hjóna.

„Gangan snýst um að sýna fólki að ofbeldi, mismunun og smánun gagnvart LBGT fólki er slæm. Við erum að senda þau skilaboð að við séum til og að við viljum sömu réttindi og aðrir íbúar Úganda,“ segir Moses Kimbugwe einn þeirra sem tók þátt í göngunni.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna mælti fyrir því í heimsókn sinni til heimsálfunnar fyrir skemmstu að bragarbót yrði gerð í málum LBGT fólks í álfunni. Yfirlýsingin hefur mætt andstöðu hjá mörgum þjóðarleiðtogum Afríku sem segja að samkynhneigð sé ekki partur af menningu álfunnar.

Nokkrar myndir af glöðu fólki í göngunni fylgja með fréttinni en myndirnar eru frá AFP.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×