Erlent

Utanríkisráðherrar 22 ríkja ræða baráttuna gegn ISIS

Atli Ísleifsson skrifar
Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, og breski utanríkisráðherrann Philip Hammond eru á meðal þeirra sem sækja fundinn.
Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, og breski utanríkisráðherrann Philip Hammond eru á meðal þeirra sem sækja fundinn. Vísir/AFP
Utanríkisráðherrar 22 ríkja funda nú í London til að ræða leiðir til að samhæfa aðgerðir sínar í baráttu sinni við liðsmenn hryðjuverkasamtakanna ISIS.

Samtökin ráða yfir stórum landsvæðum í Sýrlandi og Írak, en fjölmörg ríki undir stjórn Bandaríkjanna hafa staðið fyrir loftárásir á valin skotmörk allt frá því í ágúst síðastliðinn.

Philip Hammond, utanríkisráðherra Bretlands, segir í samtali við BBC að meira þurfi til. Nauðsynlegt sé að stemma stigu við straumi nýrra liðsmanna til samtakanna og stöðva þær leiðir sem ISIS notast við til að fjármagna starfsemi sína.

Ráðherrarnir munu einnig ræða aukna hernaðaraðstoð við þá sem berjast við liðsmenn ISIS á jörðu niðri og aukna mannúðaraðstoð til handa fórnarlamba liðsmanna ISIS.

James Robbins, fréttaritari BBC, segir hryðjuverkaárásirnar í París fyrr í mánuðinum hafa sett aukinn þrýsting á ríkisstjórnir að sýna fram á sýnilegan árangur í baráttunni.

Europol áætlar að allt að fimm þúsund evrópskir borgarar hafi farið til Sýrlands og Íraks til að ganga til liðs við ISIS. Fleiri þúsundir hafa komið frá múslímskum ríkjum og arabaríkjum.

Þeir utanríkisráðherrar sem sækja fundinn koma frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Ástralíu, Barein, Belgíu, Kanada, Danmörku, Egyptalandi, Frakklandi, Þýskalandi, Írak, Ítalíu, Jórdaníu, Kúveit, Hollandi, Noregi, Katar, Sádi-Arabíu, Spáni, Tyrklandi og Sameinuðu arabísku furstadæmunum.


Tengdar fréttir

Hóta að taka japanska gísla af lífi

Hryðjuverkahópurinn ISIS hefur birt myndband þar sem því er hótað að taka tvo japanska gísla af lífi ef að Japan borgar ekki lausnargjald fyrir þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×