Erlent

Hryðjuverkaárásin fordæmd um allan heim

Samúel Karl Ólason skrifar
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna. Vísir/AP/AFP
Þjóðarleitogar, samtök og fleiri aðilar lýsa yfir óhugnaði sínum vegna árásirnnar á skrifstofur Charle Hebdo.

Barack Obama. forseti Bandaríkjanna, fordæmdi árásina á Charlie Hebdo og sagði hana til merkis um hugleysi og illsku mannanna sem framkvæmdu hana. Þá lýsti forsetinn yfir samúð með frönsku þjóðinn, en tólf létu lífið í árásinni. Obama sagði Frakka vera einn af elstu og bestu bandamönnum Bandaríkjanna og að þeir hefðu staðið við bakið á þeim allt frá hryðjuverkaárásunum í New York þann 11. september 2001. Þetta sagði forsetinn á blaðamannafundi í dag.

Forsetinn bauð fram aðstoð Bandaríkjanna við að hafa upp á þeim hryðjuverkamönnum sem komu að árásinni, en hann hafði þó ekki rætt við Francois Hollande, forseta Frakklands. „Ég vil segja það beint við íbúa París og alla Frakka að hver og einn einasti Bandaríkjamaður stendur með ykkur í dag,“ sagði Obama. Hann sagði einnig að í raun væri árásin á málfrelsi.

Þetta er einstaklega villimannsleg árás,“ sagði Francois Hollande, forseti Frakklands.

„Þessari hræðulegu árás er ætlað að valda deilum,“ sagði Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna. „Við megum ekki falla í þá gildru. Nú þarf samstaða að ríkja í heiminum.“

„Við fordæmum þennan glæp. Við ítrekum að við erum tilbúnir til að hjálpa við baráttuna gegn hryðjuverkum,“ sagði Vladimír Pútín, forseti Rússlands.

„Þessi ógeðfellda árás er ekki bara árás gegn lífi Frakka og innra öryggis Frakklands. Hún stendur einnig fyrir árás á tjáningarfrelsi og frelsi fjölmiðla, sem eru hornsteinar lýðræðislegs þjóðfélags,“ sagði Angela Merkel, kanslari Þýskalands.

„Þessi árás mun valda ótta á stigi sem ekki hefur þekkst áður,“ sagði sænski listamaðurinn Lars Vilks. Hann hefur verið undir lögregluvernd frá því hann teiknaði skopmynd af Muhammad. „Charlie Hebdo var lítil vin. Það voru ekki margir sem þorðu að gera það sem þeir gerðu.“

„Þetta hús stendur með Frökkum í  baráttunni gegn öllum tegundum hryðjuverka og við stöndum að fullu að baki tjáningarfrelsi og lýðræðis. Þetta fólk mun aldrei geta tekið þau gildi frá okkur,“ sagði David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, á þingi í dag.

„Íslensk stjórnvöld fordæma hryðjuverkaárásina á Charlie Hebdo. Hörmulegur atburður og við vottum aðstandendum fórnarlamba okkar dýpstu samúð,“ segir Sigmundur Davíð.


Tengdar fréttir

„Allir eru í áfalli“

Lea Gestsdóttir Gayet býr í París og segist vera í sjokki vegna atburða morgunsins. Lea segir tímaritið Charlie Hebdo vera Frökkum mjög kært.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×