Erlent

Samþykkja ekki vopnahlé nema herkví á Gasa verði aflétt

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Ísraelsmenn hafa ekki dregið úr árásum sínum undanfarna daga en þéttbýlt er á Gasasvæðinu sem merkir hámarkseyðileggingu í hvert sinn sem þeir láta sprengju falla úr lofti.
Ísraelsmenn hafa ekki dregið úr árásum sínum undanfarna daga en þéttbýlt er á Gasasvæðinu sem merkir hámarkseyðileggingu í hvert sinn sem þeir láta sprengju falla úr lofti. VÍSIR/AP
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fór þess á leit í dag við palestínska andspyrnuhópinn Hamas að hann samþykkti vopnahlé við Ísraelsmenn að tillögu Egypta. Yfir 600 Palestínumenn hafa látist í átökunum og á tug Ísraelsmanna.

Ákall Kerrys kemur í kjölfar fundar Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, með Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels. Framkvæmdastjórinn hélt á fund Netanjahús til þess að ræða það hvernig hægt væri að binda enda á blóðbaðið sem á sér stað á Gasa og hefja friðarviðræður með rót átakanna að leiðarljósi.

„Við gerum það sem við þurfum til þess að verja okkur,“ sagði Netanjahú við hvatningu Ki-Moons til viðræðna milli hinna stríðandi fylkinga.

Hamas-liðar hafa áður neitað að fallast á vopnahlé. Fyrir þeim er hernámið rót átakanna og þeir hafa krafist þess að herkvínni á Gasasvæðinu verði aflétt. „Við getum ekki farið aftur á bak, til hægfara dauða,“ sagði Ismail Haniya, leiðtogi Hamas, í sjónvarpsviðtali. Ísraelsmenn virðast ekki tilbúnir til þess að frelsa Palestínumenn á Gasasvæðinu.

Skotið var beint inn á fréttastofu Al Jazeera á Gasasvæðinu í dag en Avigdor Lieberman, utanríkisráðherra Ísraels, sagðist daginn áður ætla að beita sér fyrir því að fréttastofunni yrði lokað. Hann segir Al Jazeera ljúga í andísraelskum fréttaflutningi sínum og einnig hvetja hryðjuverkamenn til dáða. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×