Erlent

Báru líkkistu mótmælanda

Freyr Bjarnason skrifar
Stjórnarandstæðingar halda á kistu manns sem lést í mótmælunumn í síðustu viku.
Stjórnarandstæðingar halda á kistu manns sem lést í mótmælunumn í síðustu viku. vísir/AP
Þúsundir Úkraínumanna hrópuðu „Hetja!“ og sungu þjóðsönginn þegar líkkista manns sem lést í síðustu viku í mótmælum gegn stjórnvöldum, var borin um miðborg Kænugarðs.

Mikhail Zhiznevsky, 25 ára, var einn þriggja mótmælenda sem lést í átökum við lögregluna.

Mótmælin í Úkraínu héldu áfram í gær þrátt fyrir tillögu forsetans Viktors Janúkóvíts um að stjórnarandstöðuleiðtogar yrðu gerðir að forsætis- og varaforsætisráðherra. Stór hópur mótmælenda réðst til atlögu á stærsta sýningar- og ráðstefnuhús Kænugarðar, köstuðu þangað eldsprengjum og skutu flugeldum. Lögreglan svaraði með táragasi.

Arsení Jatsenjúk, fyrrverandi utanríkisráðherra Úkraínu, sem reyndi að færa þjóðina nær inngöngu í Evrópusambandið, sagði hópi mótmælenda á aðaltorgi Kænugarðs að Janúkóvíts forseti yrði að gangast við helstu kröfum stjórnarandstöðunnar og að viðræður myndu halda áfram.

Stjórnarandstaðan hafnaði tillögu hans um að stjórnarandstöðuleiðtogar yrðu gerðir að forsætis- og varaforsætisráðherra. Hún krefst þess að stjórnvöld geri fríverslunarsamning við Evrópusambandið, leysi pólitíska fanga úr haldi og að haldnar verði forsetakosningar sem allra fyrst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×