Erlent

Bæjarstjórahjón handtekin í Mexíkó

Bjarki Ármannsson skrifar
Hjónin eru talin eiga þátt í hvarfi 43 nema í september.
Hjónin eru talin eiga þátt í hvarfi 43 nema í september. Vísir/AP
Lögregla í Mexíkó hefur handtekið bæjarstjóra Iguala, bæjarins þar sem 43 nemar hurfu sporlaust í september. Jose Luis Abarca og kona hans Maria de los Angeles Pineda voru eftirlýst af yfirvöldum en þau eru talin hafa átt þátt í hvarfi nemanna.

BBC greinir frá. Atburðarásin í Iguala þann 26. september, þegar nemarnir hurfu, er enn nokkuð óljós. Þó hafa bæði leiðtogar glæpagengja og yfirmenn lögreglu bæjarins verið handteknir vegna gruns um að hafa banað nemunum. Vitað er að nemarnir ferðuðust til Iguala til að taka þátt í mótmælum og lentu þar í útistöðum við lögreglu, sem hóf skothríð á rútu nemanna.

Stuttu síðar hvarf allur hópurinn en líklegt þykir að hluta hans hafi verið að finna í fjöldagröf sem kom í leitirnar í síðasta mánuði. Þar voru minnst 34 brennd lík að finna. Að sögn saksóknara sem tekur þátt í rannsókn málsins hafa þekktir mexíkóskir leigumorðingjar viðurkennt að hafa drepið 17 af þeim 43 sem týndust og segja þeir lögreglu hafa aðstoðað þá.

Forseti Mexíkó, Enrique Pena Nieto, fagnaði í dag handtöku bæjarstjórans og konu hans. Hann sagðist vona að handtaka þeirra myndi varpa ljósi á rannsókn málsins.


Tengdar fréttir

Fjöldagröf fannst í Mexíkó

Talið er að þar sé að finna lík 43 nemenda sem hurfu síðustu 27. september síðastliðinn eftir að lögregla réðist að þeim.

Kveiktu í stjórnarráðsbyggingu

Hundruð námsmanna og kennara brutu rúður og kveiktu elda í stjórnarráðsbyggingu í Chilpancingo í Mexíkó í fyrrinótt. Fólkið krefst þess að 43 námsmönnum, sem rænt var 26. september, verði skilað aftur heilum á húfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×