Erlent

Kveiktu í stjórnarráðsbyggingu

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Háskólakennarar og námsmenn mótmæla ofríki lögreglunnar.
Háskólakennarar og námsmenn mótmæla ofríki lögreglunnar. fréttablaðið/AP
Hundruð námsmanna og kennara brutu rúður og kveiktu elda í stjórnarráðsbyggingu í Chilpancingo í Mexíkó í fyrrinótt. Fólkið krefst þess að 43 námsmönnum, sem rænt var 26. september, verði skilað aftur heilum á húfi.

Talið er að lögreglumenn, tengdir fíkniefnaklíkum, hafi rænt námsfókinu úr litlum kennaraskóla í smábæ í Guerrero-héraði, en Chilpancingo er höfuðborg héraðsins.

Jose Villanueva MAnzanarez, talsmaður héraðsstjórnarinnar, segir að mótmælendurnir hafi upphaflega reynt að komast inn í þinghúsið í Chilpancingo, en lögreglan hafi komið í veg fyrir það. Þá hafi þeir haldið að stjórnarráðsbyggingunni.

Fyrir rúmlega hálfum mánuði létust að minnsta kosti sex námsmenn í bænum Iguala, sem er í Guerrero-héraði, þegar lögreglan tók að skjóta á hóp námsmanna þar.

Átökin hafa dregið fram í dagsljósið tengsl lögreglunnar víða í Mexíkó við fíkniefnahringi og aðra skipulagða glæpastarfsemi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×