Erlent

Hver eru Kailash og Malala?

Samúel Karl Ólason skrifar
Malala Yousafzai og Kailash Satyarthi, friðarverðlaunahafa Nóbels 2014.
Malala Yousafzai og Kailash Satyarthi, friðarverðlaunahafa Nóbels 2014. Vísir/AFP/Getty
Friðarverðlaun Nóbels 2014 voru veitt þeim Kailash Satyarthi og Malala Yousafzai fyrir baráttu þeirra gegn barnaþrælkun og auknum réttindum ungmenna.

Skotmark vegna baráttu sinnar

Malala Yousafzai er yngsti einstaklingurinn sem unnið hefur friðarverðlaun Nóbels. Hún er fædd í Pakistan þann 12. júlí 1997. Hún ólst upp í héraði Pakistan sem Talíbanar stjórnuðu en þeir bönnuðu stúlkum að sækja nám. Árið 2009 hóf Malala að skrifa á bloggsíðu fyrir BBC undir dulnefni. Þar lýsti hún lífi sínu undir stjórn Talíbana og fjallaði um að auka réttindi stúlkna til menntunnar. Vegna skrifa sinna hótuðu Talíbanar að drepa hana og föður hennar.

Þann 9. október 2012 sat hún í skólarútu í heimabæ sínum, Mingora, og var á leið heim úr skólanum sem faðir hennar stofnaði. Þá gekk maður um borð og spurði hana hvort hún héti Malala. Því svaraði hún játandi. Maðurinn dró upp byssu og skaut hana í höfuðið.

Malala var flutt til Bretlands þar sem læknar önnuðust hana eftir árásina. Hún þurfta að fara í fjölmargar skurðaðgerðir og meðal annars þurfti að taka stykki úr höfuðkúpu hennar vegna bólgna. Þá þurfti einnig að laga taug í andliti hennar þar sem hún var tilfinningalaus í vinstri hluta höfuðsins. Hún slapp þó með nánast engan heilaskaða.

Fyrir árásina var hún vel þekkt í Pakistan en nú varð hún heimsfræg. Malala var tilnefnd til friðarverðlaunanna í fyrra og fékk Sakharov verðlaun Evrópuþingsins sama ár.

Hún hefur haldið baráttu sinni áfram og í fyrra nefndi Time hana sem eina af hundrað áhrifamestu einstaklingum heimsins. Einnig hefur hún gefið út bókina: „Ég er Malala: Stúlkan sem stóð upp fyrir menntun og var skotin af Talíbönum.“

Hefur bjargað 80.000 börnum úr þrælkun

Kailash Satyarthi er fæddur 11. janúar 1954. Hann starfaði sem rafmagnsverkfræðingur, en­ gaf þann feril upp á bátinn þegar hann var 26 ára til að berjast gegn barnaþrælkun í Indlandi. Hann stofnaði samtökin Bachpan Bachao Andolan, eða Björgum æskunni. Samtökin hafa leitt baráttuna gegn sölu barna og barnaþrælkun í Indlandi.

Talið er að samtökin hafi leitt til björgunar nærri því 80 þúsund barna úr þrælkun.

Árið 1998 stofnaði Satyarthi til Global march against child labour samstarfsins, sem náði til 103 landa. Rúmar 7,2 milljónir manna og 20 þúsund samtök tóku þátt í átakinu, sem ætlað var að útrýma barnaþrælkun fyrir árið 2015.

Hér má sjá ræðu Malölu hjá Sameinuðu þjóðunum í fyrra: Hér talar Kailash Satyarthi um útrýmingu barnaþrælkunnar:

Tengdar fréttir

Veitt Nóbelverðlaun fyrir GPS kerfi heilans

Vísindamennirnir John O´Keefe, May-Britt Moser og Edvard Moser fengu í dag Nóbelsverðlaun í læknavísindum fyrir að uppgötva staðsetningarkerfi heilans.

Fengu Nóbelsverðlaun fyrir LED ljós

Vísindamennirnir Isamu Akasaki, Hiroshi Amano og Shuji Nakamura fengu í dag Nóbelsverðlaun í eðlisfræði fyrir að uppgötva díóður sem gefa frá sér ljós.

Staðsetningarkerfi heilans kortlagt

John O'Keefe og May-Britt og Edvard Moser fá Nóbelsverðlaunin í lífeðlisfræði þetta árið fyrir rannsóknir þeirra á heilanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×