Erlent

Pútín kallar hersveitir til baka frá Úkraínu

Bjarki Ármannsson skrifar
Pútín hefur verið sakaður um að leggja aðskilnaðarsinnum lið en hann hefur ávallt neitað því.
Pútín hefur verið sakaður um að leggja aðskilnaðarsinnum lið en hann hefur ávallt neitað því. Vísir/AP
Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur skipað þúsundum hermanna að snúa aftur frá landamærum Úkraínu, þar sem þeir hafa dvalið undanfarna mánuði. Þetta segir talsmaður Pútíns við rússneska fjölmiðla. Pútín hefur tvisvar áður lofað því að kalla hersveitir sínar til baka en Atlantshafsbandalagið (NATO) og Bandaríkjamenn sögðu í bæði skiptin enga hermenn hafa snúið aftur til Rússlands.

BBC greinir frá. Um 17,600 hermenn er að ræða. Úkraínuher og aðskilnaðarsinnar sem eru hliðhollir Rússlandi hafa barist í Austur-Úkraínu frá því í apríl. Rúmlega 3,500 hafa fallið í átökunum. Pútín hefur verið sakaður um að leggja aðskilnaðarsinnum lið en hann hefur ávallt neitað því.

Næsta föstudag mun Pútín funda með Petró Porósjenkó, forseta Úkraínu, í Ítalíu til að reyna að leysa vandann í Austur-Úkraínu. Porósjenkó segist ekki eiga von á því að viðræður við Pútín verði auðveldar.


Tengdar fréttir

Porosjenkó og Pútín funda í næstu viku

Petró Porosjenkó, forseti Úkraínu, mun funda með Vladimir Pútín, forseta Rússlands í næstu viku en þeir hafa gert ráð fyrir því að hittast í Mílanó.

Sammælast um friðaráætlun fyrir Úkraínu

Ríkisstjórnin í Úkraínu og aðskilnaðarsinnar hafa sammælst um friðaráætlun til að binda endi á átökin sem geisað hafa í austurhluta landsins síðustu mánuði.

Ná völdum yfir flugvellinum

Uppreisnarsinnar í austurhluta Úkraínu virtust í gær vera að ná völdum yfir flugvellinum í borginni Donetsk, sem hefur verið á umráðasvæði stjórnvalda.

Aðskilnaðarsinnar sleppa föngum

Rúmlega sjötíu úkraínskum stjórnarhermönnum var í gær sleppt úr haldi aðskilnaðarsinna í borginni Dónetsk, höfuðvígi uppreisnarmanna í landinu. Vopnahléið sem samið var um á dögunum virðist því halda nokkurn veginn en lausn hermannanna var einn liðurinn í vopnahléssamningunum.

Segir Pútín ásælast Úkraínu

Forsætisráðherra Úkraínu sakar Rússlandsforseta um að vilja eigna sér Úkraínu alla og þurrka út sjálfstæði hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×