Erlent

Porosjenkó og Pútín funda í næstu viku

Stefán Árni Pálsson skrifar
visir/afp
Petró Porosjenkó, forseti Úkraínu, mun funda með Vladimir Pútín, forseta Rússlands, í næstu viku en þeir hafa gert ráð fyrir því að hittast í Mílanó.

Þar munu þeir ræða ástandið í austurhluta Úkraínu en mikil ólga hefur verið þar undanfarna mánuði.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, og David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, eiga einnig eftir að vera viðstödd fundinn. Sem og forystumenn Evrópusambandsins.

Síðast þegar þeir Porosjenkó og Pútín funduðu var undirritað samkomulag um vopnahlé þann 5. september.

Að minnsta kosti 331 hefur fallið í átökum í Austur-Úkraínu þrátt fyrir vopnahlé á milli stjórnarhers Úkraínu og aðskilnaðarsinna. Sameinuðu þjóðirnar tilkynntu þetta í dag og segja átök enn eiga sér stað við borgina Donetsk, Debaltseve og Schastye.

Hart er barist um flugvöllinn í Donetsk, sem nú er í höndum hersins. Minnst 3.360 manns hafa fallið í átökunum frá því þau hófust fyrir rúmum sex mánuðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×