Erlent

Birta myndband með ebólusmituðum heilbrigðisstarfsmanni

Atli Ísleifsson skrifar
Heilbrigðisstarfsmaðurinn Nina Pham greindist með ebólu um síðustu helgi.
Heilbrigðisstarfsmaðurinn Nina Pham greindist með ebólu um síðustu helgi.
Sjúkrahús í Texas hefur birt myndband af Ninu Pham, heilbrigðisstarfsmanni sem smitaðist af ebólu þegar hún hlúði að Líberíumanninum Thomas Eric Duncan í Dallas. „Ég elska ykkur,“ segir Pham á myndbandinu þar sem hún liggur í sjúkrarúminu.

Pham var greind með ebólu síðastliðinn sunnudag og er sú fyrsta til að smitast af veirunni í Bandaríkjunum. Áður en hún var flutt frá Texas á sjúkrahús í Maryland-ríki í gær vildi hún kasta kveðju á alla samstarfsfélaga sína.

„Komið til Maryland, öll saman. Ég elska ykkur,“ segir Pham við lækninn Gary Weinstein sem tekur upp myndbandið.

Weinstein þakkar í myndbandinu Pham fyrir að hafa unnið að meðhöndlun Duncan, en Pham smitaðist þegar hún hlúði að manninum á sjúkrahúsi í Dallas. Duncan lést á sjúkrahúsinu í Dallas þann 8. október.

Pham verður haldið í einangrun og fær meðferð við National Institutes of Health í Maryland-ríki og er álitið vera eitt besta sjúkrahús Bandaríkjanna.

Amber Vinson, 29 ára samstarfskona Pham, greindist með ebólu í gær.


Tengdar fréttir

Níu þúsund hafa smitast

Þrátt fyrir varúðarráðstafanir hafa 2.700 heilbrigðisstarfsmenn smitast af ebólu og 236 þeirra eru látnir. Faraldur geisar enn í Gíneu, Líberíu og Síerra Leóne, en hætta á frekari útbreiðslu er mest í fjórtán Afríkuríkjum.

Tíu þúsund manns gætu smitast á viku

Alþjóðleg heilbrigðisyfirvöld segja hættu á að ebólufaraldurinn í Afríku muni versna enn frekar á næstu mánuðum, takist ekki að ná tökum á honum með hertum heilbrigðisaðgerðum. Sem fyrr er samt sáralítil hætta á heimsfaraldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×