„Mér líður vel. Sjálfstraustið í strákunum er flott og við erum spenntir fyrir leiknum,“ sagði Rauschenberg á æfingu Stjörnunnar nú síðdegis. Þar stjórnaði hann upphitun en það var áður eitt af skylduverkum fyrirliðans Michael Præst sem er nú meiddur.
„Ég er strangur við þá í upphituninni eins og alltaf. Þeir verða að vera á tánum, strákarnir,“ sagði hann og brosti út í annað.
Von er á metfjölda á leikinn í Kaplakrika á morgun en Rauschenberg segir að það muni ekki trufla leikmennina.
„Auðvitað verða lætin mikil og umgjörðin verður frábær. Silfurskeiðin hefur verið mögnuð í allt sumar og munu láta okkur líða eins og við værum á heimavelli. En þegar leikurinn hefst verður hann eins og hver annar leikur. Við munum ekki hugsa um neitt annað.“

Ástæðuna sagði hann vera að leikmenn frá Jótlandi væru viljugri til verks en til að mynda Kaupmannahafnarbúar. „Ég er sammála þessu - mjög sammála,“ sagði Rauschenberg án þess að hika.
„Ég held að við séum aðeins harðari. Við setjum til dæmis ekki slæmt veður fyrir okkur en strákar sem eru úr borginni eru með aðeins meira skap og hroka.“
„Fjón sleppur,“ bætti hann við. „Vemme [Niclas Vemmelund] er þaðan og ég get vottað það þar sem ég bý með honum.“

„En fyrst og fremst verður þetta mjög skemmtilegt. Allir knattspyrnumenn vilja taka þátt í svona leikjum. Allir vilja vinna titla og nú höfum við tækifæri til þess.“
„Við höfum áður sýnt í sumar, til dæmis í Evrópukeppninni, að við getum unnið lið sem teljast mun sigurstranglegri. Þá hefur okkur tekist að leggja sterk lið að velli. Þetta hefur verið mikið ævintýri í sumar og vonandi endar það vel á morgun.“
Samningur Rauschenberg við Stjörnuna rennur út um áramótin en hann veit ekki hvað tekur við. „Umboðsmaður minn sér um þessi mál. Auðvitað dreymir mig um að spila í sterkri deild í Evrópu eins og öllum öðrum sem spila í íslenska boltanum. En ég útiloka þó ekkert í framhaldinu.“