Íslenski boltinn

Kristinn Jakobsson: Menn þurfa að lifa með þessu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kristinn Jakobsson hefur verið fremsti dómari Íslands um langt árabil.
Kristinn Jakobsson hefur verið fremsti dómari Íslands um langt árabil. Vísir/Valli
„Ég er fullkomlega sáttur. Þegar ég byrjaði óraði mig ekki fyrir því að ég myndi eiga þá vegferð sem ég átti. Ég er löngu búinn að taka þá ákvörðun að hætta og er hún tekin í fullri sátt við alla aðila.“

Þetta segir Kristinn Jakobsson, einn allra fremsti knattspyrnudómari sem Ísland hefur átt. Hann dæmdi sinn síðasta leik hér á landi er Stjarnan tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn eftir 2-1 sigur á FH í ótrúlegum úrslitaleik liðanna í lokaumferð Pepsi-deildar karla.

Leikurinn hafði alla þá dramatík sem hægt var að ímynda sér. Rautt spjald, rangstöðumark, hvert dauðafærið á fætur öðru og sigurmark í uppbótartíma úr vítaspyrnu. „Þetta var virkilega gaman,“ segir Kristinn en flestir ímynda sér að það hefði tekið á dómarann að halda fullri einbeitingu í þessum aðstæðum enda hafa aldrei fleiri mætt á deildarleik á Íslandi. „Þetta voru aðstæður sem maður þekkir eingöngu frá öðrum löndum og það var frábært að fá tækifæri til að taka þátt í því. Sannur heiður.“

Hann segir ekki erfitt að eiga við tilfinningarnar, hvorki sínar né annarra, þegar jafn mikið er í húfi og var á Kaplakrikavelli á laugardag. „Dómarar hafa aðeins sekúndubrot til að taka sínar ákvarðanir og sú reynsla sem maður hefur stuðlar að því að flestar eru þær réttar. Auðvitað má deila um einhverjar þeirra – þannig er bara gangur lífsins.“

Kristinn hikaði ekki við að dæma Kassim Doumbia brotlegan þegar hann fór utan í Ólaf Karl Finsen, leikmann Stjörnunnar, í uppbótartíma leiksins. Allt ætlaði um koll að keyra en Kristinn stóð fastur á sínu og gerir enn. „Ég sá bara brotið og flautaði. Það eru ósjálfráð viðbrögð hjá mér og annað skiptir engu máli, hvorki hvaða lið á í hlut eða á hvaða mínútu atvikið gerðist,“ segir Kristinn.

Fyrr í leiknum gerði Sigurður Óli Þórleifsson, annar aðstoðardómara Kristins, mistök þegar hann flaggaði ekki Ólaf Karl rangstæðan í fyrra marki Stjörnunnar. Kristinn segir að Sigurður Óli hafi verið fyrstur manna til að viðurkenna mistökin þegar hann sá atvikið í sjónvarpi. „Svona lagað er eins og að brenna af víti í úrslitaleik. Menn þurfa að lifa með þessu,“ sagði Kristinn.

Eftir leikinn gekk mikið á. Leikmenn og áhorfendur gerðu sig líklega til að veitast að dómurum. Kristinn segir að sér hafi ekki liðið illa á því augnabliki.

„Ég þrífst undir pressu og geri það sem stjórnandi í mínu fyrirtæki á hverjum degi. Þetta er eitthvað sem gerist í hita leiksins og maður stjórnar ekki utanaðkomandi áhrifum frekar en veðrinu.“

Kristinn segir engan vafa á því að leikur og FH og Stjörnunnar muni lifa lengi í minningunni. „Þessi leikur mun alltaf standa upp úr hjá mér, hvort sem er daginn eftir leik eða eftir 50 ár ef ég verð svo lánsamur að lifa svo lengi.“

Kristinn, sem er 45 ára, gæti haldið áfram að dæma hér á landi í fimm ár til viðbótar en um áramótin dettur hann út af lista Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, sem milliríkjadómari sökum aldurs.

„Það hefur alltaf verið gulrót fyrir mig að dæma erlendis. Ég hef dæmt flesta leiki á Íslandi oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Því tel ég tímabært að ég snúi mér að öðrum störfum í dómaraumhverfinu og fari að gefa eitthvað til baka með því að miðla minni reynslu til yngri dómara.

Hann segir margt eftirminnilegt eftir langan feril í dómgæslu. „Líklega stendur upp úr að hafa dæmt í Meistaradeild Evrópu. Þá var gaman að vera einn af afar fáum sem fengu að starfa í úrslitakeppni EM 2008,“ segir Kristinn og bætir við að dómgæslan hafi gert honum kleift að starfa í öllum Evrópulöndunum nema þremur. Þá rifjaði hann upp hvar hann var staddur 10. september 2001.

„Ég var á leið til Trínidad og Tóbagó til að dæma og millilenti í New York. Ég hitti félaga minn og við fórum upp í tvíburaturnana aðeins nokkrum klukkutímum áður þeim var grandað. Þar var ég staddur bara út af því að ég var að fara að dæma knattspyrnuleik

Kristinn sýnir Veigari Páli Gunnarssyni, fyrirliða Stjörnunnar, rauða spjaldið í úrslitaleiknum á laugardaginn.Vísir/Andri Marinó

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×