Íslenski boltinn

Peningarnir ekki notaðir til að kaupa nýja leikmenn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð Finnbogason er sterklega orðaður við Real Sociedad þessa dagana en uppeldisfélög hans myndu njóta góðs af sölunni.

Alfreð hefur slegið í gegn með hollenska liðinu Heerenveen síðustu tvö tímabil en hann skoraði 29 mörk í úrvalsdeildinni á nýliðnu tímabili og varð markahæstur.

Hann hefur lengi verið orðaður við hin ýmsu félög víða í Evrópu en síðustu daga hafa hollenskir og spænskir fjölmiðlar greint frá því að Real Sociedad hafi átt í viðræðum við Heerenveen um kaupverð.

Real Sociedad er sagt reiðubúið að borga rúman 1,1 milljarð nú og um 400 milljónir króna til viðbótar ef Alfreð uppfyllir ákveðin skilyrði á samningstímanum tengd frammistöðu hans.

Samkvæmt þessu fengi Breiðablik um 35 milljónir í sinn hlut í uppeldisbætur en Fjölnir og belgíska liðið Lokeren um ellefu milljónir hvort.

Rætt var við Borghildi Sigurðardóttur, formann knattspyrnudeildar Breiðabliks, í kvöldfréttum Stöðvar 2 þar sem fram kom að verði af sölunni muni deildin nota upphæðina til að styrkja innviði félagsins. Hún tók fyrir að upphæðin yrði eyrnamerkt fyrir leikmannakaup í meistaraflokki karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×