Erlent

Íranar reiðubúnir að verja helga staði í Írak

Randver Kári Randversson skrifar
Hassan Rouhani, forseti Írans, hét því í gær að verja helga staði sjía í Írak.
Hassan Rouhani, forseti Írans, hét því í gær að verja helga staði sjía í Írak. Vísir/AFP
Hassan Rouhani, forseti Írans, hét því í sjónvarpsávarpi í gærkvöldi að verja heilaga staði sjía-múslima í Írak ef nauðsyn krefðist. Þetta kemur fram á vef Reuters.

Rouhani sagði að íranska þjóðin myndi ekki hika við að verja helgidóma í Karbala, Najaf, Kadhimiya og Samarra. Jafnframt sagði forsetinn að fjöldi fólks í Íran væri reiðubúinn að fara til Írak til að berjast, en lagði þó áherslu á að Írakar væru færir um að verja sig sjálfir, þar sem sjíar, súnnítar og kúrdar væru tilbúnir til að færa fórnir.

Hörð átök eru nú á svæðinu norður af Bagdad þar sem er að finna marga af helgustu stöðum sjía-múslima. Stjórnarherinn leitast nú við að verja borgina Samarra, sem er einn helgasti staður sjía-múslima en talið er að uppreisnarmenn muni einnig sækja að borgunum Najaf og Karbala sem hafa tilheyrt sjía-múslimum frá því á miðöldum.

Átökin í Írak að undanförnu gætu snúist upp í stríð á milli trúarhópa þar sem uppreisnarmenn í Írak, sem leiddir eru af samtökunum ISIS, eru að stærstum hluta súnnítar en meirihluti írösku þjóðarinnar eru sjíar og eru þeir í meirihluta í ríkisstjórn Íraks.


Tengdar fréttir

Íbúar í Bagdad hamstra matvæli

Íbúar í Bagdad höfuðborg Íraks eru byrjaðir að hamstra matvæli og safna vatni en vígamenn Isis samtakanna nálgast nú borgina óðfluga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×