Erlent

Klámstjarna býður sig fram gegn Rob Ford

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Nikki Benz ætlar að lækka skatta komist hún til valda.
Nikki Benz ætlar að lækka skatta komist hún til valda. MYnd/Af Twitter-síðu Benz
Líkurnar á því að Rob Ford verði endurkjörinn borgarstjóri Toronto gætu hafa minnkað til muna.

Nikki Benz, margverðlaunuð kanadísk klámstjarna, lýsti því yfir í síðustu viku að hún hefði áhuga á borgarstjórastólnum og sagði í samtali við blaðamenn vestanhafs að hún myndi eflaust standa sig betur en Ford sem er nú í meðferð til að vinna bug á vímuefnafíkn sinni.

Benz hefur sagt að hún muni vinna fullum fetum að því að lækka skatta á íbúa Toronto og reyna að koma á laggirnar blómlegum klámmyndaiðnaði í borginni. „Það myndi bjarga fjárhag Toronto,“ er haft eftir henni.

Benz, sem hefur leikið í 217 klámmyndum og birst margoft á síðum karlablaðana Penthouse og Hustler, vill einnig gera 7. maí – Alþjóðlega sjálfsfróunardaginn  - að löggiltum frídegi í borginni.

Hin 32 ára Benz hefur ekki enn formlega lýst yfir framboði sínu en allar líkur eru taldar á því að hún láti slag standa. Yrði hún þá ein af 55 frambjóðendum sem sækjast eftir borgarstjórastólnum í Toronto í kosningunum þann 27. október næstkomandi. Aðrir í framboði eru meðal annars rokksöngvari, lögfræðingur, fyrrnefndur Rob Ford og trúður.

Klámstjarnan hefur þó strax vakið mikla athygli í aðdraganda yfirlýsingar hennar með slagorðum á borð við „Skiptu út Fordinum þínum fyrir Benz“ og léttklæddum myndum af sér á Twitter-síðu sinni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×