Erlent

Ísraelsk stjórnvöld takmarka aðgang Palestínumanna að vatni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
VISIR/AFP
Þúsundir Palestínumanna hafa verið án drykkjarhæfs vatns í austurhluta Jerúsalem í rúmlega 60 daga.

Samkvæmt þarlendum fréttaflutningi hafa ísraelsk stjórnvöld neitað um 80.000 íbúum svæðisins um aðgang að hreinu vatni þrátt fyrir ítrekaðar kvartanir mannréttindasamtaka sem hafa gagnrýnt ísraleska vatnsveitufyrirtækið Gihon harkalega fyrir að hafa dregið lappirnar í málinu.

„Við fáum einungis vatn einu sinni í viku“ sagði Nutfah Rajah, íbúi á svæðinu í samtali við ísraelsku sjónvarpsstöðina Press TV og bætti við að vatnið væri vart drykkjarhæft í búðunum í austurhluta Jerúsalem þar sem Palestínumenn er einna helst að finna.

Mannréttindasamtök hafa skilað inn undirskriftum til dómsvalda í Ísrael til að mótmæla skeytingarleysi stjórnvalda. Íbúar svæðisins, sem farnir eru að veikjast vegna vatnsskorts, telja að þessar takmarkanir stjórnvalda séu liður í áætlunum þeirra um að bola Palestínumönnum úr Jerúsalem.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem svipuð mál koma upp á svæðinu en palestínskar fréttaveitur fluttu fréttir af því þegar ísraelsk stjórnvöld drógu úr vatnsmagni til tíu bæja norðaustan við Jerúsalem í apríl 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×