Erlent

Segir Norður-Kóreu „ekki alvöru land“

Bjarki Ármannsson skrifar
Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, ásamt eiginkonu sinni Ri Sol Ju á nýlegri hersýningu.
Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, ásamt eiginkonu sinni Ri Sol Ju á nýlegri hersýningu. Vísir/AFP
Talsmaður suður-kóreska varnarmálaráðuneytisins gagnrýnir í dag harðlega stjórnvöld  í Norður-Kóreu og gengur svo langt að segja að ríkið ætti hreinlega að „gufa upp.“

Reuters fjallar um þetta mál. Þessi ummæli koma í kjölfar deilna milli nágrannaríkjanna tveggja sem stigmögnuðust í mars þegar Bandaríkin og Suður-Kórea ásökuðu einræðisríkið um að njósna um Suður-Kóreu með mannlausum dróna.

Tilkynning frá norður-kóreska hernum segir þessar ásakanir uppspuna af hálfu Park Geun-hye, forseta Suður-Kóreu, og að Bandaríkin haldi þeim á lofti í blindni. Yfirvöldum í Washington var líkt við „elliæran afa“ í tilkynningunni.

Kim Min-seok, talsmaður suður-kóreska varnarmálaráðuneytisins, brást við tilkynningunni með óvenju harðorðri árás á nágranna sína í norðri.

„Norður-Kórea er ekki alvöru land, er það nokkuð?“ sagði Min-seok á fundi í Seoul. „Það hefur ekki mannréttindi eða frelsi. Það gegnir því eina hlutverki að halda á lofti einni manneskju.

Þetta land lýgur í sífellu og notast við afturhaldssamt orðagjálfur. Þess vegna ætti það að gufa upp.“

Norður- og Suður-Kórea sömdu tæknilega séð aldrei um frið eftir stríðið þeirra á milli á árunum 1950 til 1953. Tilkynningin sem birtist í dag er sú nýjasta af mörgum sem  Norður-Kórea hefur sent út sem fara ófögrum orðum um suður-kóreska forsetann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×