Erlent

Norður-Kórea heldur áfram tilraunastarfsemi með langdrægar eldflaugar

Karl Ólafur Hallbjörnsson skrifar
Norður-Kóresk eldflaug til sýnis í hernaðarskrúðgöngu í Pjongjang.
Norður-Kóresk eldflaug til sýnis í hernaðarskrúðgöngu í Pjongjang. Vísir/AFP
Suður-Kóreski herinn tilkynnti í morgun að Norður-Kóreumenn hafi skotið tveimur meðaldrægum eldflaugum í tilraunaskyni. Eldflaugunum var skotið frá herbúðum fyrir norðan Pjongjang, höfuðborg landsins, og flugu þær út í haf við austanverða strönd Norður-Kóreu. CNN greinir frá.

Tilraunirnar voru framkvæmdar á sama tíma og Barack Obama Bandaríkjaforseti, Shinzo Abe, Japansforseti og Park Gyuen-hye, forseti Suður-Kóreu hittast á kjarnorkumálaráðstefnu í Haag.

Á síðustu vikum hefur Norður-Kórea skotið þó nokkrum eldflaugum á braut, en þó hafa öll tilraunaskot hingað til verið skammdræg. Ein eldflaugin kom nálægt því að hæfa kínverska farþegaþotu. Ekki virðist sem svo að Norður-Kórea hafi gefið út nokkurs konar viðvaranir hvað varðar nýjustu skotin.

Varnarmálaráðuneyti Suður-Kóreu í Seúl telur skotin vera viðbrögð norðursins við sameiginlegum heræfingum Bandaríkjahers  og Suður-Kóreumanna, og einnig skilaboð til alþjóðasamfélagsins. Tímasetning tilraunaskotanna bendir til þess að þau hafi eitthvað með kjarnorkumálaráðstefnuna að gera.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×