Enski boltinn

Níu ára bið Arsenal á enda | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arsenal fagnaði sínum fyrsta stóra titli í níu ár eftir 3-2 sigur á Hull City í framlengdum bikarúrslitaleik á Wembley. Þetta var 11. bikarmeistaratitill Arsenal.

Myndband með öllu því helsta sem gerðist í leiknum má sjá í spilaranum hér að ofan.

Hull, sem hafði aldrei unnið enska bikarinn, fékk sannkallaða draumabyrjun, en eftir átta mínútna leik var staðan 2-0, Tígrunum í vil.

James Chester kom Hull yfir á 3. mínútu þegar hann stýrði misheppnuðu skoti Toms Huddlestone í netið framhjá Lukasz Fabianski í marki Arsenal.

Fimm mínútum síðar tvöfaldaði fyrirliðinn Curtis Davies forystu Tígranna þegar setti boltann í markið eftir að Fabianski hafði varið skalla Alex Bruce í stöngina.

Santi Cazorla minnkaði muninn með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu á 17. mínútu. Fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleik og staðan að honum loknum var 2-1, Hull í vil.

Arsenal jafnaði leikinn á 71. mínútu þegar Laurent Koscielny skoraði eftir mikinn atgang í vítateig Hull. Mörkin urðu ekki fleiri í venjulegum leiktíma og því þurfti að grípa til framlengingar.

Arsenal-menn voru betri í framlengingunni. Oliver Giroud skallaði í slána á 95. mínútu og Aaron Ramsey átti svo skot í hliðarnetið úr þröngri stöðu.

Sá síðarnefndi tryggði Arsenal svo sigurinn á 109. mínútu með góðu skoti eftir snotra sendingu frá Giroud.

Sone Aluko var svo grátlega nærri því að jafna leikinn undir lokin þegar skot hans fór rétt framhjá marki Arsenal.

Mörkin urðu hins vegar ekki fleiri og Arsenal-menn fögnuðu langþráðum titli, þeim fyrsta í níu ár. Þungu fargi er því væntanlega létt af Arsene Wenger, þjálfara liðsins, til átján ára.

Kieran Gibbs grípur í Aaron Ramsey sem skoraði sigurmark Arsenal.Vísir/Getty
Leikmenn Arsenal fagna sigurmarki Ramseys.Vísir/Getty
Lukas Podolski gerir sig líklegan til að sulla kampavíni yfir Arsene Wenger.Vísir/Getty
Wenger fær flugferð.Vísir/Getty
Bikarmeistarar Arsenal ásamt lukkudýri.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×