Erlent

Fann þriggja vikna dreng í kassa í Tansaníu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
mynd/helga
Helga Huld Halldórsdóttir, læknir, starfaði sem sjálfboðaliði á spítala í Vestur-Tansaníu árið 2011. Dag einn fann hún lítinn dreng ofan í kassa í fæðingarherbergi inni á spítalanum. Drengurinn var tæplega þriggja vikna gamall og hafði móðir hans yfirgefið hann.

„Móðir hans hafði skilið hann eftir í strætó. Hún hafði beðið nágrannakonu sína um að halda á honum en fór og kom aldrei aftur,“ segir Helga. Drengurinn var vafinn í teppi og ofan í járnkassa og tók Helga í fyrstu ekki eftir honum.

Lítil samúð með munaðarleysingjum

Hún segir að mikið hafi verið að gera hjá hjúkrunarkonunum á spítalanum og því hafi þeim ekki gefist mikill tími til að hugsa um hann, bleyjuskiptingar og annað slíkt hafi fengið að mæta afgangi. „Umhugsunin er allt önnur en maður hefur vanist. Oft lá hann í sinni eigin ælu og pissi. Þær skiptu vissulega á honum, en ekki eins oft og tíðkast hér.“

Hún segir fólk hafa haft litla samúð með þessu litla barni. Menningin sé allt önnur og þar sé í raun ekki óalgengt að börn finnist úti eða á vergangi. „Manni finnst þetta voðaleg vanræksla og skilur ekki alveg hvernig er hægt að vera svona harðbrjósta.“

Oliver litli.mynd/helga
Íhugaði að taka hann að sér

Helga hugsaði um drenginn í þrjá mánuði og haf honum nafnið Oliver.  „Ég tók hann oft með mér heim að vinnu lokinni, en fékk þó ekki að hafa hann á næturnar. Þeim fannst skrítið að ég vildi hafa hann hjá mér.“  

Helga segir það sjaldgæft að munaðarlaus börn séu ættleidd á þessum stað og hafði hún því samband við SOS-barnaþorp á Íslandi.  SOS á Íslandi hafði samband við SOS í Tansaníu og fundu fyrir hann heimili í höfuðborginni.

Helga íhugaði að taka Oliver að sér, en aðstæður hennar á þeim tíma buðu ekki upp á það. Hún heldur þó enn sambandi við hann og fær hún reglulega sendar af honum myndir og er hún í dag styrktarforeldri hans. Hún segir Oliver vaxa og dafna vel hjá fjölskyldu sinni í barnaþorpinu Dar-es-Salaam.

Þeir sem vilja leggja sitt af mörkum og gerast styrktarforeldrar geta skráð sig á heimasíðu SOS barnaþorpa.

Oliver er þriggja ára gamall í dag. Hann vex og dafnar vel að sögn Helgu.mynd/helga



Fleiri fréttir

Sjá meira


×