Erlent

Kerry sér eftir að hafa talað um aðskilnaðarríki

Guðsteinn Bjarnason skrifar
John Kerry og Benjamín Netanjahú á fundi í byrjun ársins.
John Kerry og Benjamín Netanjahú á fundi í byrjun ársins. Vísir/AP
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segist hafa valið óheppilegt orðalag þegar hann sagði Ísrael eiga á hættu að verða ríki aðskilnaðarstefnu takist ekki að semja við Palestínumenn um tveggja ríkja lausn.

Kerry lét þessi orð falla á lokuðum fundi á föstudag í Washington, þar sem fulltrúar Bandaríkjanna, Ísraels og Palestínu ræddust við.

"Áherslan verður greinilega á tveggja ríkja lausn sem eina raunverulega valkostinn," sagði Kerry á lokaða fundinum á föstudag. "Því sameiginlegt ríki endar á því að vera aðskilnaðarríki með annars flokks borgurum, eða þá að það verður að ríki sem gerir það ómögulegt fyrir Ísrael að vera ríki gyðinga."

Það var vefsíðan The Daily Beast sem skýrði upphaflega frá þessum ummælum Kerrys.

Kerry sendi síðan frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann viðurkenndi að auðvelt væri að snúa út úr þessum orðum sínum, og sakaði pólitíska andstæðinga sína um að hafa notfært sér það óspart.

"Ég hefði notað önnur orð til að lýsa þeirri staðföstu trú minni að tveggja ríkja lausnin sé til lengdar eina leiðin til þess að vera með Gyðingaríki og tvær þjóðir sem lifa hlið við hlið í friði og öryggi," sagði Kerry í yfirlýsingu sinni.

Um þessar mundir er að renna út sá frestur, sem Bandaríkjastjórn setti bæði sér og leiðtogum Ísraels og Palestínu til þess að komast að samkomulagi.

Viðræður höfðu legið niðri í nokkur ár þegar Bandaríkjamenn reyndu að blása lífi í þær síðastliðið sumar. Þær viðræður hafa engan sjáanlegan árangur borið, og Ísraelar virðast nú hafa endanlega blásið þær af eftir að tvær helstu fylkingar Palestínumanna, Fatah og Hamas, sögðust hafa náð sáttum í síðustu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×