Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, kynnti í dag fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2014. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs aukist um rúman 31 milljarð á milli ára. Fari úr tæpum 556 milljörðum í rúma 587 milljarða. Á sama tíma er gert ráð fyrir að heildarútgjöld aukist um 300 milljónir og fari úr 586.743 milljörðum í 587.096 milljarða.
Tekjuskattur lækkar
Tekjuskattur á einstaklinga á að skila rúmum 130 milljörðum í ríkiskassann á næsta ári og eykst um 3,6 milljarða milli ára. Tekjuskattur fyrirtækja á að skila 45,6 milljörðum og eykst einnig um 3,6 milljarða frá fyrra ári. Virðisaukaskattur á að skila 156,7 milljörðum á næsta ári og eykst um rúma 9 milljarða milli ára. Ekki er þó gert ráð fyrir hækkun tekjuskatts. Skatthlutfallið í miðþrepi tekjuskattsins verður lækkað um 0,8%, úr 25,8% í 25%. Þá verður farið í endurskoðun á virðisaukaskattskerfinu með það að markmiði að draga úr bili milli skattþrepa, fækka undanþágum og auka skilvirkni. Vörugjöld verða einnig endurskoðuð og tryggingagjaldið verður lækkað um 0,34 prósentustig á næstu þremur árum.

Sparnaður vegna aðhaldsaðgerða nemur tólf milljörðum. Fallið verður frá nýlegum eða óútfærðum verkefnum fyrir 5,8 milljarða. Veltutengdar aðhaldsaðgerðir ráðuneyta eiga að spara 3,6 milljarða og aðrar sértækar aðgerðir eiga að lækka útgjöld um 2,6 milljarða.
Þá stendur til að endurskoða skilmála skuldabréfs sem var gefið út til að styrkja eiginfjárstöðu Seðlabanka Íslands eftir bankahrun. Sú endurskoðun á að lækka vaxtagreiðslur ríkissjóðs um tæpa 11 milljarða.
Ríkisstjórn hyggst einnig hækka svokallaðan bankaskatt úr 0,041% í 0,145%. Frá og með næstu áramótum mun skatturinn einnig leggjast á þrotabú gömlu bankanna sem mun skila aukalega 11,3 milljörðum í ríkiskassann.
Fram kemur í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu að lykilmarkmið fjárlagafrumvarpsins sé að tryggja bætt lífskjör almennings. Gert sé ráð fyrir því lækkun skatta skili sér í 0,3 prósenta kaupmáttaraukningu á næsta ári .
Hér að ofan má sjá brot frá blaðamannfundi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra.