Þorlákur Árnason tilkynnti í dag að hann væri hættur að þjálfa kvennalið Stjörnunnar í knattspyrnu. Hann getur gengið stoltur frá borði enda varð lið hans Íslandsmeistari í sumar með fullt hús stiga.
"Ég er búinn að hugsa um þetta í tvær vikur. Mér fannst vera komið gott hjá Stjörnunni eftir átta ár hjá félaginu. Hér hefur mér liðið vel en nú er kominn tími á að prófa eitthvað nýtt," sagði Þorlákur við Vísi í dag.
Fram og ÍA eru á meðal þeirra liða sem eru að leita sér að nýjum þjálfara. Menn velta því eðlilega fyrir sér hvort Þorlákur sé á leið á annan hvorn staðinn.
"Ég hef ekki talað beint við neitt félag. Það er alveg satt. Ég var að taka þessa ákvörðun núna og svo var ég úti í Rússlandi með U-17 ára liðinu.
"Ég vil starfa áfram í kringum fótboltann og það verður bara að koma í ljós hvað gerist."
