Enski boltinn

Lukaku spillti kveðjustund Sir Alex

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lukaku fagnar jöfnunarmarki sínu.
Lukaku fagnar jöfnunarmarki sínu. Nordicphotos/Getty

Romelu Lukaku kom inn á sem varamaður og skoraði þrennu í ótrúlegu 5-5 jafntefli West Brom og Manchester United í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag.

Leikurinn var sá 1500. og síðasti sem Sir Alex Ferguson stýrir Manchester United og buðu leikmenn beggja liða upp á markaveislu á kostnað varnarleiks sem lítið sást af.

United komst í 3-0 í fyrri hálfleiknum með mörkum Kagawa og Buttner auk þess sem Jonas Olsson skoraði sjálfsmark. Shane Long minnkaði muninn fyrir heimamenn undir lok fyrri hálfleiksins og kveikti vonarneista hjá stuðningsmönnum West Brom sem leist ekkert á blikuna.

Paul Scholes fékk gult spjald í síðasta leik sínum með United.Nordicphotos/Getty

Romelu Lukaku kom af bekknum í hálfleik og óhætt er að segja að Belginn hafi breytt gangi mála. Hann minnkaði muninn snemma í hálfleiknum með fínu skoti utan teigs og staðan orðin 3-2. Mörk frá Javier Hernandez og Robin van Persie komu United hins vegar í 5-2 og stefndi í stórsigur United þegar tíu mínútur lifðu leiks. Þá settu heimamenn í gang.

Lukaku og varamaðurinn Marc-Antoine Fortune skoruðu hvor sitt markið á sömu mínútunni og fjórum mínútum síðar jafnaði Lukaku metin eftir atgang í vítateig United. Gestirnir reyndu hvað þeir gátu til að tryggja sér sigurinn undir lokin en án árangurs.

Úrslitin skiptu engu fyrir lokastöðu liðanna í deildinni. United löngu búið að tryggja sér Englandsmeistaratitilinn og West Brom hafnar í 8. sæti.


Tengdar fréttir

Norwich skellti City og Nolan með þrennu

Kanarífuglarnir frá Norwich gerðu sér lítið fyrir og unnu 3-2 sigur á andlausu liði Manchester City á útivelli í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×