Erlent

Dauðvona stúlka fékk að upplifa drauminn

Kayleigh ásamt "brúðgumanum“ í brúðkaupinu á þriðjudaginn.
Kayleigh ásamt "brúðgumanum“ í brúðkaupinu á þriðjudaginn.
Kayleigh Duff, tuttugu og þriggja ára breska stúlka, fékk þær skelfilegu fréttir í febrúar að arfgengur sjúkdómur hefði þróast yfir í ólæknandi krabbamein í lifur. Faðir hennar lést úr sjúkdómnum þrjátíu og sjö ára að aldri árið 1998.

Stúlkan hóf lyfjameðferð í mars síðastliðnum og í henni skrifaði hún niður nokkra hluti sem hún vildi gera áður hún myndi deyja. Á listanum var brúðkaup en hana hafði alltaf dreymt um að giftast.

En þrátt fyrir að eiga engan kærasta reddaði besta vinkona hennar því á nokkrum dögum og fór brúðkaupið fram á þriðjudaginn. Vinkonan hafði samband við myndarlega fyrirsætu sem brá sér í hlutverk brúðgumans.

Brúðkaupið var hið allra glæsilegasta og komu vinir og fjölskylda saman í kastala í borginni Kent. Brúðurin kom í Jagúar í athöfnina og drukkið var kampavín og borðuð var brúðkaupsterta. Þá voru einnig teknar myndir af „hjónunum“ með fjölskyldum og vinum.

„Þetta var frekar vandræðalegt í fyrstu vegna þess að þetta voru augljóslega mjög undarlegar aðstæður. Ég gat ekki hætt að hlæja. Ég átti ekki von á þessu, þetta var algjört brjálæði,“ segir hún í samtali við breska blaðið Telegraph.

„Þetta var æðislegt og það má segja að draumur minn hafi ræst. Brúðarkjóllinn var æðislegur og kastalinn og veislan sömuleiðis.“

Og mamma hennar, Beverly Cox, var stolt af dóttur sinni.

„Hún var svo falleg. Hana hefur alltaf langað að giftast og klæða sig í fallegan brúðarkjól. Þegar þú sérð hana með myndarlegum ungum manni sér við hlið gleymir þú hvað sé í raun og veru í gangi. Þetta var alveg eins og þetta væri alvöru brúðkaup. Það skiptir okkur miklu máli að fá myndir af þessari fallegu stund - stund sem hana hefur alltaf dreymt um.“

Og brúðkaupið var ekki það eina sem var á listanum hjá henni. Því hana langar einnig að sjá vaxmyndasafnið í London og Lególand í Danmörku.

„Ég tek bara einn dag í einu,“ segir hún að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×