Erlent

Fá ekki einkaleyfið

Svissneska lyfjafyrirtækið Novartis fær ekki einkaleyfi á endurbættri útgáfu sinni á krabbameinslyfinu, Glivec. Hæstiréttur á Indlandi hafnaði beiðni fyrirtækisins á þeim forsendum að nýja útgáfan af lyfinu væri keimlík þeirri gömlu.

Dómurinn þýðir að önnur lyfjafyrirtæki mega áfram selja mun ódýrari samheitarlyf sem svipar til Glivec en þeim er ætluð þeim sem þjást af kyrningahvítblæði.

Mikill munur er á verði á þessum lyfjum. Mánaðarskammturinn af Glivec kosta um 320 þúsund krónur á meðan samheitarlyfið kostar um 22 þúsund krónur.

Anand Grover, lögmaður krabbameinssamtaka á Indlandi, sagði í samtali við breska ríkisútvarpið að úrskurður hæstaréttar tryggi að fátækir sjúklingar muni áfram fá nauðsynleg lyf.

Talsmaður Novartis segir hinsvegar að dómurinn komi til með að draga úr lyfjaþróun á Indlandi. Það muni aftur koma niður á sjúklingum með ólæknandi sjúkdóma sem sárlega þurfi á nýjum lyfum að halda.

Dómurinn er fordæmisgefandi og festir Indland í sessi sem helsta framleiðanda ódýrra samheitarlyfja. Mun erfiðara er að fá einkaleyfi á Indlandi en til að mynda í Bandaríkjunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×