Erlent

Slökktu á sjónvarpinu á meðan þú borðar

Mynd/Getty
Að borða fyrir framan sjónvarpið eykur hættuna á ofáti og þar af leiðandi því að verða of þungur.

Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem gerð var við Liverpool-háskóla, og kom í ljós að svokallað „matarminni“ spilar stóran þátt í því hversu mikið fólk borðar.

Muni fólk eftir fyrri máltíðum sem mettaði það verða skammtarnir minni, og er mælt með matardagbókum, myndum af mat, og jafnvel því að hafa umbúðir af mat í nálægð við sig á meðan borðað er.

Þá binda aðstandendur rannsóknarinnar vonir við að app (smáforrit) sem verið er að prófa með fólki í yfirþyngd sýni fram á hversu góð áhrif matarminnið hefur á líkamsþyngd, en að sögn Eric Robinson, yfirmanns rannsóknarinnar, hefur sjónvarpsátið hræðileg áhrif.

„Sjónvarpinu hefur verið kennt um síminnkandi hreyfingu fólks, en nú sjáum við að það hefur líka slæm áhrif á matarvenjur og veldur því að fólk þyngist enn frekar.“

Mælir Robinson með því að í stað þess að einblína í sífellu á hitaeiningafjölda eigi fólk að hugsa um matinn á meðan það borðar, veita bragði, lykt og áferð athygli, og tyggja hægar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×